21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í D-deild Alþingistíðinda. (3828)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni frá hæstv. atvmrh. vil ég leiðrétta þær fullyrðingar, sem komu fram í svari hans um þetta mál. Hann sagði hér, að hagur ríkissjóðs væri kominn þannig, að hann gæti ekki lengur staðið við þær skuldbindingar, sem honum væru bundnar hér með l.

Vitanlega er hagur ríkissjóðs ekki eins góður og 1947. 1. des., hygg ég, að komnar hafi verið inn 206 millj. kr. tekjumegin og greiddar út 175 millj. kr., eða yfir 30 millj. kr. gróði eða tekjuafgangur á árinu 1947. Ég hygg, að því muni hafa komið upp tekjumegin 225 millj. kr. eða meira. Þetta getur hæstv. fjmrh. náttúrlega upplýst. Þannig er þetta samanlagt stærsta tekjuár ríkissjóðs og bezti tekjuafgangur, sem nokkurn tíma hefur verið. Svo segir hæstv. ráðh., að hagur ríkissjóðs sé þannig kominn, að ekki sé lengur hægt að standa við skuldbindingar, sem honum eru bundnar. Slíkur áróður er óþolandi. Sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir góða afkomu er ekki hægt að uppfylla þetta. Sannleikurinn í málinu sést í frv., sem nú liggur fyrir, því að aldrei hefur verið gert ráð fyrir meiri tekjum en á árinu 1948. Aldrei hefur verið flutt eins mikið inn eins og 1947 og útflutningur með mesta móti. En það er annað atriði, að ríkissjóður hefur orðið að sinna mörgu málefni og nota sitt fé til þess, vegna þess að bankinn hefur viljað taka undir þennan áróður um, að hér væri allt að fara í kaldakol, til að reyna að stöðva verðbólguna í landinu.

Ég geri þessa aths. við svar ráðh., sem ég get ekki skilið öðruvísi en að hér sé allt að fara í kaldakol fjárhagslega.