21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (3829)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég fæ hér nýjar upplýsingar hjá hv. þm. Barð., þar sem hann upplýsir hér, að ríkið vaði í peningum, sem það hafi ekkert við að gera. Þetta eru öðruvísi upplýsingar en koma frá hæstv. fjmrh., sem eðlilega hefur verið við að greiða þessar upphæðir. Ég skal upplýsa það, að yfirdráttur ríkisins hjá Landsbanka Íslands var kominn í 35–40 millj. um áramót. Ég veit ekki betur en að ríkisstofnanir skuldi hjá Landsbankanum einum um 90 millj. kr. Svo segir hv. þm. Barð., að ríkisstj. og ríkið yfirleitt vaði í peningum, sem þeir hafi ekkert við að gera. Ef hv. þm. N-M. lítur þannig á þetta, þá fer ég að skilja ásakanir hans í garð ríkisstj. um, að hún svíkist um að greiða fjárhæðir, sem hún eigi að greiða og geti greitt. Ég veit ekki, hvaðan hv. þm. Barð. kemur, formaður fjvn., sem búinn er að sitja yfir fjárl. ríkisins og á að hafa allra manna bezta aðstöðu til að kynna sér, hvernig hag ríkissjóðs er komið, að hann skuli rjúka upp með fullyrðingar eins og þessar og segja, að ríkið vaði í peningum, sem það hafi svo að segja ekkert við að gera. Ég get ekki skilið svona fullyrðingar öðruvísi. Sannleikurinn í þessu er, að það er búið að festa allt fé laust í bönkum, sparisjóðum og öðrum sjóðum ríkisins og ríkissjóði sjálfum, þannig að það er ekki leikur fyrir ríkisstj. að svara út milljónum á milljónir ofan, þótt hún sé öll af vilja gerð til að standa við þær greiðslur, sem henni ber að greiða samkv. lögum.

Ég vil heldur þrátt fyrir þessar ástæður, sem verið hafa, segja frá þeim eins og þær eru. Og ég er sannfærður um, að ríkisstj. tekst með aðstoð bankans að greiða úr þessari lánaþörf, sem hér er til umr., eins og henni er skylt að gera. Ég vildi aðeins upplýsa það, að það er ekki af tómum illvilja ríkisstj. í garð landsmanna. yfirleitt að tregðast við þessum greiðslum, eins og menn vildu vera láta.

Þetta er sannleikur málsins, og við það höfum við að glíma í ríkisstj. og Alþ. að horfast í augu við þetta, þótt form. fjvn. vilji ekki sjá hlutina í réttu ljósi.