11.02.1948
Efri deild: 59. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

146. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1948

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Það er orðin nokkuð föst venja að fresta að minnsta kosti samkomudegi reglulegs Alþ. eða aðalstörfum reglulegs Alþ. fram á haustið. Kemur þetta til af því, að nokkuð þykir óþægilegt og erfitt að afgreiða fjárl. með svo miklum fyrirvara sem nauðsynlegt væri, ef Alþ. ætti að koma saman á þeim tíma, sem ákveðinn hefur verið.

Ríkisstj. hefur borið fram frv. í hv. Nd. um það að fresta samkomudegi reglulegs Alþ. 1918 til 1. okt. þetta ár. Við meðferð málsins í hv. Nd. komst sú n., sem hafði þetta mál til meðferðar, að þeirri niðurstöðu, að heppilegra væri, að þingið kæmi ekki saman fyrr en 10. okt. Þetta álit sitt byggði n. á því, að það væri talsvert óþægilegt fyrir þm. sveitakjördæmanna að koma til þings í byrjun okt. vegna haustanna, og taldi því nauðsynlegt, að þing kæmi ekki saman fyrr en 10. okt. Á þetta féllst hv. d. og er málið komið í þeim búningi til þessarar hv. d.

Allshn. hefur athugað frv., og leggur meiri hl. n. til, að það verði samþ. óbreytt. En minni hl., hv. 1. þm. N-M. og hv. 4. landsk., leggja til, að frv. verði fært í það horf, sem það var, þegar ríkisstj. bar það fram í Nd.

Ástæðan fyrir því, að meiri hl. n. vill fallast á að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir, er meðal annars sú, að n. getur fallizt á þau rök, sem fram komu í hv. Nd., að óþægilegt væri fyrir utanbæjarþm. að koma svo fljótt til þings, og það gæti verið þægilegra fyrir þá að þurfa ekki að fara heiman frá sér til þingstarfa fyrr en 10. okt., enda hefur reynslan orðið sú, þegar þing hefur komið saman 1. okt., að fyrstu dagana hafa verið heldur slæmar heimtur.

Þá er á það að líta, að búið er að breyta frv. í þetta form, og af því að ekki virðist bera á milli nema 10 dagar og slíkt sýnist vera lítil breyting, telur meiri hl. n. ástæðulaust að vera að kasta frv. á milli d. einungis út af þessu atriði og leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.