22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í D-deild Alþingistíðinda. (3834)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson) :

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að hefja hér stórpólitískar umr. við þennan þm., hv. þm. Barð., en öll þau orð, sem ég viðhafði í umr. í gær um þetta mál, standa óhrakin, og staðfesti hv. þm. það sjálfur með ræðu sinni. Enda þótt ríkissjóður hafi fengið fé með meira móti, er það allt bundið vegna framkvæmda, sem ákveðnar hafa verið áður, en allt fé, sem ríkissjóður fær inn, fer í þessar framkvæmdir vegna þess, að lánamarkaðurinn er þrotinn. Hv. þm. Barð. taldi nokkur fyrirtæki, sem ríkissjóður hefur orðið að binda fé sitt í af þessum sökum, og mætti mörg fleiri telja, og við þennan vanda hefur ríkisstj. orðið að glíma og meðal annars kemur þar til það mál, sem hér er til umr. Ríkisstj. er stöðugt að leita fyrir sér um lausn þessa máls, og það er ekki af neinu áhugaleysi eða illvilja í garð þessara stofnana, að málin hafa ekki verið leyst, heldur stafar það af þeim fjárhagsörðugleikum, sem ég lýsti í gær. En ríkisstj. mun halda áfram að vinna að lausn í þessu efni, þar til hún finnst, en það álít ég og vona, að verði, áður en langt um líður.