22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (3838)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Út af turnum þeim á skýjaborg þeirri, sem hv. 2. þm. Árn. vék að í ræðu sinni, þá finnst mér ekki alls ólíklegt, að forráðamenn Skálholts vildu gjarnan, að eitthvert sýnilegt merki væri um hina fornu frægð staðarins. Brynjólfur biskup hafði mikinn turn á sínum húsum, og gæti því hér verið um nokkra eftirlíkingu þeirrar byggingarlistar að ræða, sem minnti menn um leið á forna frægð staðarins. Þessi hv. þm. hefði að öðru leyti átt að spara sér allar dylgjur um dugnaðarleysi og vanmátt skólastjóra og kennara við þá tvo búnaðarskóla, sem nú eru starfræktir, og ég vil skora á hv. 2. þm. Árn. að ræða þann þátt þessa máls opinberlega, ef hann þorir. Ég spurði hann áðan að því, hverju það sætti, að hann hefði slíkar dylgjur í frammi hér á Alþ., en hann svaraði mér engu til. Ég mun gefa þessum hv. þm. tækifæri til að ræða um þetta síðar í sambandi við annað mál. Varasamt var það fyrir aðstöðu hv. 2. þm. Árn. að fara að minnast á aðsóknina að búnaðarskólunum. Hv. þm. er í sýnilegri hættu. Hann er að verða sér til minnkunar með 10 milljón króna skólabygginguna í Skálholti. Þangað mundu slæðast 5–6 menn, og ekki fengi hv. þm. betri menn til að stjórna 10 milljón króna skólanum en fyrir eru við búnaðarkennslu við gömlu skólana, Hvanneyri og Hóla. Það er líka eftirtektarvert, að er hv. 2. þm. Árn. samdi frv. til l. um búnaðarskóla í Skálholti, þá bjó hann skólanum nákvæmlega sömu skipulagsskrá og hinir skólarnir hafa. Þar var um alveg sama form að ræða, og er það einfalt, hvernig á því stendur. Hv. þm. hefur bara ekkert vit á þeim málum, sem hann er að berja hér fram og barði fram með nokkru offorsi.

Þá vil ég snúa máli mínu til hv. 2. þm. Reykv. Hv. þm. varð fyrir mikilli sorg í vetur, er leið, að verða ekki skipaður bankastjóri Landsbankans. Nú er svo ástatt hjá honum, að honum líkar sinn hlutur líkt og refnum, sem missti skott sitt og vildi, að allir refir væru skottlausir, vegna þess að hann var það sjálfur. Hv. þm. getur litið með ánægju á það, sem flokksbróðir hans hefur framkvæmt á Siglufirði. Á Siglufirði eru að vísu nokkuð ólíkir turnar, sem hallast. Það er fleira, sem hallast, en turninn í Pisa á Ítalíu. Á Siglufirði eru lýsisgeymar, sem hallast, og lýsið rennur niður, og þar er líka mjölhúsið fræga. Þar er einnig síldarverksmiðja, sem ónýtti þúsund smálestir af mjöli á síðasta sumri. Til nokkurs fróðleiks hv. 2. þm. Reykv. segi ég honum, að vegna þessara lélegu mannvirkja, sem sósíalistar reistu á Siglufirði, hefur miklu fé verið eytt úr ríkissjóði, og enn hvílir mikil skuld í Landsbankanum vegna þessara mannvirkja. Of miklu fé hefur verið ráðstafað að láni til manna, sem ekki kunna að fara með fé eða önnur verðmæti. Þess vegna mun hv. 2. þm. Reykv. henta bezt að þegja.