22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í D-deild Alþingistíðinda. (3850)

907. mál, lánsfjáröflun til Ræktunarsjóðs Íslands

Hermann Jónasson:

Ég ætla að svara fullyrðingum hv. þm. Barð. viðvíkjandi útlánum Búnaðarbankans. Þær eru af sama tagi og aðrar fullyrðingar hans, t. d. varðandi fjárhag ríkissjóðs.

Búnaðarbankinn hefur sett fé sitt í sjóði og gætt þess betur en nokkur annar banki. Hann á nú stærri sjóði en nokkur önnur lánsstofnun. Auðvitað verður að veita stutt lán til þess að geta kallað þau inn með litlum fyrirvara, en ekki 42 ára lán. — Annars vil ég aðeins minnast á, hvað þetta mál er alvarlegt og leiða athygli að meginmálinu.

Menn verða að gera sér ljóst, að l. frá Alþ. marka fyrst og fremst stefnuna í fjármálum og atvinnumálum. Engin stjórn getur leyft sér að taka við l. frá Alþ., sem hún er ekki samþykk sjálf. Það er grundvallarregla alls þingræðis. Ef stjórn situr og tekur við l., skoðast það sem samþykki. Annars segir hún þinginu, að hún fari. Frá þessari reglu er ekki hægt að víkja.

Annað, sem menn verða að gera sér ljóst, er það, að merkilegustu loforð í þjóðfélaginu eru l. frá Alþ. Engin loforð eru æðri.

Það er eðlilegt, að bændur geri sínar ráðstafanir samkvæmt þessum loforðum. Það er augljóst, að undan þeim verður ekki komizt, nema brjóta niður það, sem sízt af öllu má brotna, loforð frá æðstu stofnun þjóðarinnar. Hæstv. ríkisstj. hefur gert grein fyrir því, hvernig á þessu stendur, en hér er hlutur, sem verður að ganga á undan öllum öðrum. Bændur eru búnir að gera sínar ráðstafanir, og eitthvað annað verður að bíða frekar en að vanefna gefin loforð.

Ég sagði hér í umr. í gær, að þau l., sem ekki væri hægt að framkvæma, væri betra að afnema. Ef skýr rök eru færð fram fyrir því, er ég viss um, að þjóðin sættir sig betur við það en að l. séu ekki framkvæmd.

Það er ekki undarlegt, þótt spurt sé, hvað því valdi, að l. eru ekki framkvæmd. Það væri fremur undarlegt, ef ekki væri spurt. Það er rétt að ræða þetta mál, svo að skýringar komi fram, þjóðin á heimtingu á því.

Það er ekki gott fyrir stjórn Búnaðarbankans að sitja dag eftir dag og neita lánum, nema það komi í ljós, að allt sé gert til þess að koma þessu í lag. Mér er kunnugt um það, að það getur ekki dregizt lengi vegna stöðugra umkvartana, að bankinn gefi út opinbera skýrslu um það, hvað veldur þessu.

Ég vil að lokum segja það, af því hæstv. fjmrh. sagði, að stjórninni hefði verið borið á brýn, að hún hefði brotið l., að í nýbýlal. stendur, að stjórnin eigi „að veita eða útvega lán“. Ef skyldan er fyrir hendi, er um brot að ræða, það er ekki nema um einn veg að ræða. Um ræktunarsjóð er það að segja, að stjórnin á að afla ræktunarsjóði lánsfjár. Ákvæðið er ekki ólíkt, en ef stjórnin vill ekki afla þess, getur hún gert seðlabankanum skylt að útvega lánsfé.

Ég ætla svo ekki að ræða þetta frekar. Ég vænti þess, að öllum sé það ljóst, að hér getur ekki orðið nema örstutt bið, þar til þessu verður fullnægt.