04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3860)

141. mál, þjóðleikhúsið

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Þessi fsp. lýtur að því, að fyrir nokkrum misserum leitaði þáverandi menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, eftir því, að þjóðleikhúsnefnd veitti 60 þús. kr. til einhverra sérstakra þarfa í sambandi við leikhúsbygginguna. Þetta kom okkur, sem í n. vorum, nokkuð undarlega fyrir, því að engin stjórn hafði áður farið fram á slíka hluti og af því að n. hafði yfirleitt reynt að hafa ekki annan kostnað við byggingarstarfið en það, sem hún kom beinlínis til með að borga starfsmönnum. Þannig var n. búin að starfa frá 1923–1946, þegar þetta kom, og aldrei fengið kaup sjálf né haft neinn skrifstofukostnað. Nefndarfundir hafa verið haldnir hjá formanni eða heima hjá nm. og þess utan á skrifstofu húsameistara. N. hefur yfirleitt ekki eytt til sinna þarfa, nema hún hefur víst borgað fundargerðabók.

Þegar okkur barst þetta, þá fannst okkur það ekki rétt. Niðurstaðan er sú, að þar sem þarna er yfirmaður menntamálanna, sem fór fram á þetta, að þá sá hann ekki annað en peningana, án þess að vita, hvað með þá var að gera. Ég meina ekki með þessari fsp., að ráðh. hafi notað þá til sinna þarfa. Mér er ókunnugt um það, og ég tel ekki líkur til, að þurfi að nota þá í leikhúsbygginguna. Ég vildi biðja hæstv. ráðh. að gefa mér sundurliðað, hvað hefur orðið af þessum peningum.