04.02.1948
Sameinað þing: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í D-deild Alþingistíðinda. (3863)

141. mál, þjóðleikhúsið

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Mér heyrðist hv. þm. S-Þ. vera að sakast við rekstrarnefnd þjóðleikhússins um frv. hennar, og skal ég ekki deila um það við hann. En það er misskilningur, að rekstrarnefndin tæki fé fyrir störf sín. Hún tók ekki neitt. Annars hefur hæstv. ráðh. gert fulla grein fyrir málinu, fullkomlega tæmandi. Ég vildi aðeina benda á, að orðalag þessarar fsp. er dálítið skrítið. Þar stendur svo, að spurt er, hvað fyrrv. menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, hafi gert við 60 þús. kr. úr þjóðleikhússjóði, sem hann hafi notað til annarra þarfa að óvilja þjóðleikhúsnefndar. Nú sagði hv. þm. S-Þ. að vísu, að sér dytti ekki í hug, að ég hefði tekið þetta fé til minna þarfa, en orðalag fsp. er bersýnilega til þess, að menn haldi, þegar þetta t. d. er skýringalaust lesið upp í útvarp, að ég hafi tekið peninga á óheiðarlegan hátt. Hv. þm. hafa heyrt, hvernig í þessu liggur og að ég hef ekkert fé tekið til minna þarfa. Hvað viðvíkur mínum afskiptum af málinu, þá skipaði ég 19. febr. 1945 rekstrarnefnd þjóðleikhússins samkv. till. leikara og áhugamanna um leiklist, og skipaði ég t. d. í n. formenn beggja leikfélaganna í bænum og aðra áhugamenn, svo sem Halldór Kiljan Laxess og Jakob Möller, og er Jakob varð sendiherra, þá tók sæti hans Hörður Bjarnason, sem jafnframt var formaður þjóðleikhúsnefndar. N. tjáði mér síðar, að hún gæti ekki unnið starf sitt án nokkurs fjár til sinna umráða, og mælti ég með því, að n. fengi 80 þús. kr. til starfs síns, enda var það í fullu samræmi við gildandi lög. Þar sem það hafði nú tekið á annan tug ára að byggja þjóðleikhúsið, þá var ekki nema eðlilegt, að leikarar hefðu hug á að gera ráðstafanir til að taka húsið í notkun, strax og það væri tilbúið, og þegar n. var skipuð, var gert ráð fyrir, að það yrði tilbúið á þessu ári. Það var ósk allrar n., að þetta fé yrði greitt, og jafnframt formanns þjóðleikhúsnefndar, Harðar Bjarnasonar, en meiri hluti þjóðleikhúsnefndar vildi hins vegar ekki greiða féð, nema til kæmu bein fyrirmæli ráðherra, og þegar ég hafði gefið þau, þá var það gert, og vona ég, að því hafi ekki verið verr varið en ýmsu öðru fé úr þjóðleikhússjóði. En það er ýmislegt, sem menn vilja gjarnan fá að vita viðvíkjandi byggingu þjóðleikhússins. Ég hef, t. d., verið spurður að því, hvort ekki yrði bráðum farið að halda upp á 20 ára afmælið frá því að byggingin var hafin. Að lokum vildi ég biðja hæstv. ráðh. að gefa upplýsingar um það í fyrsta lagi, hvenær ráðgert er, að húsbyggingunni verði lokið, og í öðru lagi vildi ég óska þess, að Alþ. yrðu gefnar nákvæmar og sundurliðaðar skýrslur um það, hvernig þjóðleikhússjóði hefur verið varið frá upphafi, og þá sérstaklega hvað miklu fé hefur verið varið úr sjóðnum, frá því að framkvæmdir voru hafnar á ný. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort ég megi ekki vanta þessara upplýsinga innan skamms, en ég vildi það heldur en leggja þessar spurningar fram í fyrirspurnarformi.