25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3869)

147. mál, ríkisreikningar 1944, 1945 og 1946

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Ég skal geta þess, að ríkisstj. hefur lagt áherzlu á, að reikningurinn 1944 yrði tilbúinn nú, en það hefur ekki tekizt. Allt frá miðju síðastliðnu sumri hafa starfsmenn rn. verið að krefjast athugasemda við reikninginn, en þær hafa ekki borizt fyrr en nú fyrir stuttu, svo að það er nýlega, sem hægt hefur verið að skila aths. til endurskoðendanna. Það ætti að vísu ekki að líða mjög langur tími þar til þessi reikningur verður tilbúinn, en þó er vafasamt, að hægt verði að leggja hann fyrir nú, þar sem nú er nokkuð áliðið þings. — Reikningurinn 1945 er nú prentaður, en endurskoðun hefur ekki verið lokið. Varðandi reikninginn 1946, þá hafa endurskoðendur hans nýlega verið kosnir, svo að endurskoðun á honum er ekki hafin.

Hvað snertir þá ósk flm. að kjósa nú endurskoðendur fyrir 1947, þá skal ég taka það til athugunar. Það er alveg rétt, að þessi dráttur á ríkisreikningunum er óheyrilegur, en fjmrh. verður ekki kennt um þann drátt, sem orðið hefur nú á reikningnum 1944, heldur stafar hann af því, hversu erfitt hefur verið að fá upplýsingar frá ýmsum stofnunum, sem nauðsynlegar eru fyrir endurskoðunina. Þá hefur verið mjög erfitt með húsnæði, en sá annmarki mun nú ekki lengur fyrir hendi. — Ég sé svo ekki ástæðu til að svara þessu frekar, en vænti að fyrirspyrjandi sætti sig við þetta.