25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (3871)

147. mál, ríkisreikningar 1944, 1945 og 1946

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Aðeins fá orð. Hv. þm. V-Húnv. hefur nú fengið svör frá ráðh.

Þessum þm. þykir að vonum seint sækjast að leggja ríkisreikningana fyrir þingið, og er ekki hægt að undrast það, þó að ekkert sé fært til verri vegar, en það er ýmislegt, sem veldur þessum drætti, sem nauðsyn er að ráða bót á. Í fyrsta lagi tekur nokkurn tíma að semja reikninginn. Þá er að endurskoða hann og gera athugasemdir, en síðan þurfa viðkomandi stofnanir að gera grein fyrir sínu máli, ef eitthvað þykir athugavert, og endurskoðendurnir aftur að athuga það og gera sínar endanlegu athugasemdir. — En það er líka fleira, sem hefur valdið, og það eru húsnæðisvandræði. Í fyrra haust, þegar átti að hefja endurskoðun á reikningnum 1944, þá fékkst ekkert húsnæði, og ekki fyrr en eftir langa bið fengum við loks lánað herbergi á Hótel Borg. Í haust fór á sama veg, þegar átti að fara að endurskoða reikninginn 1945. Þm. þarf því ekki að undra, þótt seint gangi með endurskoðunina. (Menntmrh.: Ósköp er að heyra þetta. Hefur endurskoðunin verið húsnæðislaus í 3 ár? ) . Það er þingið, sem á að sjá um það, þó að það hafi ekki verið gert betur en þetta.

Hv. þm. V-Húnv. sagði, að hægt væri að endurskoða reikningana áður en þeir væru prentaðir, og það getur verið, en mikið yrði að vinna upp af verkinu aftur. (SkG: Það er misskilningur.) Hv. þm. gerir sér þá ekki grein fyrir, hvað reikningarnir eru margbrotnir. — Ég vildi aðeins skýra þetta, svo að ekki sé hægt að saka yfirskoðunarmennina um, að þeir hafi ekki unnið eins og kostur var á.