25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í D-deild Alþingistíðinda. (3872)

147. mál, ríkisreikningar 1944, 1945 og 1946

Sigfús Sigurhjartarson:

Það hefur komið hér í ljós, í hvílíkt óefni þessum málum er komið. Það er ekki verjandi, að ríkisreikningarnir frá 1944 skuli ekki hafa verið birtir enn. Hvorki húsnæðisleysi né annað getur afsakað það. Svo ekki meira um það. Hins vegar vildi ég benda á það, að ég hygg, að ástæða sé til að athuga, hvernig hin umboðslega endurskoðun fer fram, ekki síður en endurskoðun af hálfu hinna kjörnu fulltrúa þingsins. Um Tryggingastofnun ríkisins er því svo háttað, að ríkið annast endurskoðunina, en á þann hátt, að enn er endurskoðun fyrir árið 1944 ekki lokið. Þetta er ekki sagt í ádeiluskyni á hæstv. núv. fjmrh., heldur fyrrv. Ég vil benda á þetta til að sýna, að ástandið er orðið óþolandi. Yfirstjórn þessarar stofnunar hefur heimtað endurskoðun, og fyrir nokkru var hafizt handa og maður settur í endurskoðunina frá upphafi og einnig fyrir árið 1948. Ef vel á að vera, eiga reikningarnir að koma fram ekki síðar en í marzmánuði ár hvert. Þessi mál eru í öngþveiti, og engar afsakanir er hægt að taka gildar. Sérhvert fyrirtæki lætur þessu vera lokið á útmánuðum.