18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í D-deild Alþingistíðinda. (3881)

156. mál, þjóðleikhúsið

Jónas Jónsson:

Ég held, að það komi hér fram nokkur ókunnugleiki á þessu máli, t. d. hjá þeim hv. þm., sem síðast talaði. En það er hins vegar heppilegt, að þessar umr. séu hér. Menn veiti því eftirtekt, að húsið var gert fokhelt fyrir 1933 fyrir 700 þús. kr. En hvernig stóð á því, að það var hætt við það þá? Það var Alþ., sem rauf samninga við þjóðleikhússjóð og þjóðleikhúsnefnd, tók alla peningana og lét svo húsið standa, en götustrákar brutu í því rúður og gerðu allt það illt af sér, sem þeir gátu. Þegar svo herinn kom, tók hann það, og sú leiga, sem fékkst eftir það, var miðuð við pakkhúsleigu í bænum og komst í þessu tilfelli upp í eitthvað 200 þús. kr. En það, sem eftirtektarverðast er — og vona ég, að hv. þm. Barð. athugi það er það, að ef húsið hefði verið látið hafa sinn sjóð og verið byggt á þeim tíma, sem átti að gera, hefði það verið komið upp, áður en stríðið skall á, og kostað lítið. Hv. 4. landsk. var hissa á því, hvað það væri dýrt að byggja núna. Hverjum er það að kenna? Hverjum er meira að kenna en einmitt honum um vöxt dýrtíðarinnar? Hverjir voru það aðrir en hv. 4. landsk. og hans lið, sem hækkuðu kaupið með skæruhernaðinum. Nú sjá þeir sig í þessum spegli, og er þó ekki allt komið fram.

Það, sem minnzt hefur verið á erfiðleikana núna að ljúka húsinu, er ákaflega auðskilið. Það hefur alltaf verið unnið á móti þjóðleikhúsinu af fjöldanum í Rvík, síðast og allra mest af hv. 4. landsk. og þeim, sem fetað hafa í hans spor, því að það, sem vakti fyrir þeim, sem komu þessu máli áleiðis, var það, að hér væri þjóðleikhús, sem áhugasamir leikmenn gætu notað, en um leið og hv. 4. landsk. kemst höndum undir, heimtar hann með vafasömum rétti peninga handa vinum sínum og gæðingum til þess að leika sér úti í löndum, og ég óska þess, að einn þátturinn í þeirri skýrslu, sem hann hefur hér óskað eftir, verði sundurliðun á þeim reikningi, þeim 16 þús., sem hans maður fékk til þess að skreppa til Kaupmannahafnar.