18.02.1948
Sameinað þing: 45. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (3883)

156. mál, þjóðleikhúsið

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Mér er ekki kunnugt um það, hvernig reikningar þjóðleikhúsnefndar eru endurskoðaðir, en að sjálfsögðu ætti það að vera þannig, að þeir væru endurskoðaðir árlega. Ef til vill getur hæstv. fyrrv. menntmrh. upplýst það, en ég mun kynna mér það og sjá um, að þeir verði endurskoðaðir, hafi það ekki verið gert.

Hv. þm. Barð. spurði, hvort Bretar hefðu borgað eitthvað fyrir húsið. Það er mér ekki kunnugt um, það var fyrir löngu afstaðið, þegar ég kom að þessum málum, og ef til vill getur fyrrv. menntmrh. gefið upplýsingar um þetta. Annars borgaði herliðið mér vitanlega ekki leigu eftir neitt húsnæði, sem það hafði hér, en mér er ekki kunnugt um það. (JJ: Herliðið borgaði 200 þús. fyrir þjóðleikhúsið.) Það er þá upplýst, að herinn hafi borgað þessa upphæð.

Í sambandi við það, sem fyrirspyrjandi sagði hvort ríkisstj. gæti ekki sagt til um það, hvort gjaldeyrir fengist til þess að ljúka húsinu, þá var ég búinn að upplýsa það, að gjaldeyrisyfirvöldin hafa ekki talið sér fært að verða við óskum þjóðleikhúsnefndar um yfirfærslu gjaldeyris af þeim venjulegu gjaldeyristekjum í þessu skyni, og þess vegna hefur verið farið inn á þá braut að semja um gjaldfrest eða lán í sambandi við það. Ef það tekst, geri ég ráð fyrir, að þetta geti gengið. Annars geri ég varla ráð fyrir, að þetta verði látið. — En þetta gefur mér nokkurt tilefni til þess að minna á það, að fyrrv. menntmrh. ætti að vera nokkuð kunnugt um það, hvernig í þessu liggur, því að hann var menntmrh. í 2 ár a. m. k., og á þeim árum var ráðstafað öllum gjaldeyrisinnistæðum þjóðarinnar, gefin út leyfi fyrir þeim öllum og ríflega það, en þjóðleikhúsið fékk ekki neina úrlausn sinna mála á þeim tíma.

Eins og ég sagði, mun ég óska eftir sundurliðaðri skýrslu yfir byggingarkostnaðinn, eins og venja er til undir slíkum kringumstæðum. En hvort fyrirspyrjanda líkar sundurliðunin á þeirri skýrslu, um það verður auðna að ráða.