25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í D-deild Alþingistíðinda. (3894)

163. mál, Bessastaðakirkja

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af þeirri fsp. frá hv. fyrirspyrjanda, sem hann beindi til fjvn., hvort gert hefði verið samkomulag við hana um, að ekki skyldi verða fært á fjárl. neitt fé, sem kynni að verða greitt til bygginga á Bessastöðum, vil ég leyfa mér að upplýsa, að síðan ég kom í fjvn. og tók við formennsku þar 1945, hefur aldrei slíkt samkomulag verið gert, enda ekki farið fram á það af neinum. Það eina, sem ég minnist, að hafi verið rætt um framlag til endurbóta á Bessastöðum, var á fundi fjvn. 4. febr. 1946, þar sem þáverandi ráðh. óskaði að fá samþykki fjvn. um framlag til endurbóta á búrekstri á Bessastöðum, vegna skipta á bústjóra, því að sá, sem kom, mun hafa sett það skilyrði, að nokkru fé yrði varið til endurbóta á peningshúsum. Þetta var tekið fyrir á fundi hjá n. daginn eftir og þá óskað eftir að fá upplýsingar um, hversu kostnaðurinn mundi verða mikill, en eftir því, sem ég man bezt, komu þær aldrei. Nokkur hluti n. fór suður að Bessastöðum til að skoða þetta ásamt teikningum, sem við höfðum séð um framkvæmdir á Bessastöðum, en ég hygg, að þessar framkvæmdir hafi ekki verið gerðar, enda minnist ég þess ekki, að n. hafi fjallað um það mál. Ég minnist ekki, að komið hafi til fjvn. nokkurt erindi um fjárframlag til Bessastaða nema til forseta sjálfs.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að upplýsa á þessu stigi.