25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í D-deild Alþingistíðinda. (3897)

163. mál, Bessastaðakirkja

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að ég verði að hryggja hv. 4. þm. Reykv. með því, að það getur ekki verið að óleyfi hæstv. ríkisstj., að þetta fé hefur verið látið til framkvæmda og umbóta á Bessastaðakirkju, því að nýlega hefur verið pantað orgel í kirkjuna fyrir 30 þús. kr. og fengin til þess nauðsynleg leyfi hjá hinum erfiðu n. fyrir forgöngu hæstv. stjórnar, svo að ég hygg, að það sé jafnfjarstætt og að ætla að halda því fram, að ríkisstj. og forseti landsins hafi ekki staðið að umbótum á Bessastaðaheimilinu sjálfu. Ég hygg, að hæstv. landbrh. hafi líka þótt nokkuð hár reikningurinn fyrir hænsnahús það hið mikla, er þar hefur verið reist undir stjórn þessa sama húsameistara, en af því að það kemur síðar, skal ég ekki fjölyrða um það nú.

Ég verð líka að hryggja hv. þm. með því, að ef Matthías Þórðarson þjóðminjavörður og hans ungi eftirmaður hafa hylmað yfir með ríkisstj. og húsameistara, þá er það vítavert fyrir þá. Það liggur í augum uppi, að það, sem fornminjavörður heiði þá átt að gera, var að kæra hvern þann mann, sem hefði brotið í þessum efnum. Annars virðist það hafa verið skynsamlegt að taka minnisvarða Magnúsar amtmanns upp úr moldinni og búa virðulega um gröf Magnúsar. En það getur verið huggun fyrir þessa tvo prófessora, Guðbrand Jónsson og þennan unga prófessor, að allt, sem þeir vilja láta gera, það getur stjórnin látið gera tafar- og fyrirhafnarlaust. Hún getur látið setja Magnús Gíslason aftur niður í moldina og hafið upp Pál Stígsson, þann mesta böðul, sem á Íslandi hefur verið, það kostar aðeins nokkrar krónur, og sömuleiðis mun vera hægt að setja þar aftur grindverkið með fangamarki þess konungs, sem Struense starfaði undir. Og þá er hún til altaristaflan með Kristi fótalausum. og það er hægt að flytja hana aftur á sinn gamla stað. Prédikunarstólinn má sömuleiðis flytja í kirkjuna aftur. Og þá er hægt að fela Gunnlaugi Halldórssyni, af því að hann hefur séð um svo miklar umbætur á þessum stað, að smíða merkilegar spelkur með hæfilegum nöglum til að halda brotunum saman. Spurningin er bara þessi: Ef þessi hv. þm. verður bráðlega ráðh., eins og vel má búast við eftir atgervi hans hér í þinginu. og hefur aðstöðu til að framkvæma þetta, vill forseti Íslands taka á móti þessu, Magnúsi Gíslasyni niður í moldina, Páli Stígssyni upphöfnum og Kristi fótalausum, og setja allt í það ástand, sem Guðbrandur Jónsson vill vera láta?