25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í D-deild Alþingistíðinda. (3899)

163. mál, Bessastaðakirkja

Pétur Ottesen:

Ég hef því miður verið fjarverandi frá þessum umr. og ekki heyrt nema nokkuð af þeim. Það hefur verið á það minnzt, hvernig háttað hafi verið fjárveitingum til ýmissa framkvæmda á Bessastöðum. Mér skildist, að hv. 4. þm. Reykv. hefði sagt og hefði það úr blaðagrein, sem húsameistari ríkisins hefði skrifað, að þar stæði, að tekin hefði verið ákvörðun um það í fjvn., að það fé, sem varið yrði til framkvæmda á Bessastöðum, skyldi eigi tekið upp í fjárl. (JJ: Það stendur ekki í greininni, það er rangt haft eftir.) Ég hef ekki lesið þessa grein, svo að ég get ekki andmælt þessu, en þetta eru mjög athugaverð ummæli, ef rétt er farið með, og skírskota ég til hv. 4. þm. Reykv., sem verður að standa þar fyrir sínu máli. Af því að svo hefði mátt líta á, að fjvn. hefði á einhvern hátt haft óeðlileg áhrif á fjárveitingar til þessara framkvæmda, þá vil ég skýra frá, að á þingi 1944 leitaðist þáverandi forsrh., Björn Þórðarson, fyrir um það, hvert væri álit fjvn. og óskaði samþykkis hennar til þess, að nokkru fé væri varið til bygginga á Bessastöðum, og var þar sérstaklega um að ræða stækkun á skála við Bessastaðahúsið, væntanlega sem forseti lætur nota í sambandi við heimsóknir á staðinn. Það voru mjög skiptar skoðanir um málið í n., og við fyrstu atkvgr. um það ætla ég, að meiri hl. n. hafi lagt á móti, að n. mælti með því fyrir sitt leyti, að þessi fjárveiting væri leyfð. Ég skal ekki fullyrða, hvort nm. hafa tekið þessa afstöðu af því, að þeir hafi verið á móti þessari framkvæmd, eða hitt, sem líklegra er, að n. hafi álitið, að stj. bæri að leita heimildar Alþingis um notkun þessa fjár. En málið var nokkuð fast sótt af hálfu stj., svo að það kom til atkvgr. á ný í n., og við endurtekna atkvgr. mun hafa fengizt meiri hl. fyrir því, að þetta væri gert. (Rödd af þingbekkjum: Hvernig var sá meiri hl.?) Það má birta það, ef þess er óskað, annars hafa alþm. aðgang að fundarbókum og geta þar séð, hvernig þessi meiri hl. hefur verið og m. a. afstöðu hv. þm. S-Þ. og mína til málsins, því að um það mun hafa verið nafnakall. Þetta eru þau einu afskipti fjvn. og sú eina samþ., sem gerð hefur verið í n. á þessu tímabili um þessi mái. Ég held, að ég muni það rétt, því að ég mun hafa átt sæti í n. öll þau ár, sem þessar framkvæmdir hafa verið gerðar, svo að það virðist hafa verið samkomulag um það hjá þeim ríkisstj., sem hafa staðið að þessum framkvæmdum, að verja fé til þeirra án þess að leita frekar en þeir hafa gert samþykkis Alþingis fyrir að verja fé í þessu skyni.

En ef það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að húsameistari ríkisins hafi borið það fram, að samkomulag hafi verið um það milli stj. og fjvn. að láta þessar fjárveitingar ekki koma fram í fjárl., þá er það athugavert mál, svo að ég tel rétt að krefja húsameistara svara um það, hvað hann hafi fyrir sér í því efni, því að það væri samsæri gegn Alþingi, ef rétt væri með farið.