25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (3902)

909. mál, bifreiðaeign ríkissjóðs, opinberra stofnana og ríkisfyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ásamt hv. 1. þm. Rang. hef ég leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 360 til hæstv. fjmrh. svo hljóðandi:

„Hvað eiga ríkissjóður, opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki margar fólksbifreiðar, sem embættismenn eða opinberir starfsmenn hafa til ókeypis afnota? Hvaða embættismenn og opinberir starfsmenn njóta þeirra hlunninda, sem hér er um að ræða?“

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undanfarin veltuár hefur meðferð á fé ríkisins orðið æ losaralegri. Stjórnarkerfið hefur vaxið svo gífurlega, að nú má telja, að um ríkisbákn sé að ræða. Það er ekki aðeins, að starfsmönnum ríkisins hefur verið fjölgað, heldur hafa risið upp ýmsar stofnanir og ýmisleg störf verið upp tekin, sem hæpið er, að full nauðsyn sé á, og ástæða kann því að vera til að leggja niður. En ekki nóg með þetta. Jafnframt stóraukinni fjölgun ríkisstofnana og opinberra starfsmanna hafa ýmsir þeirra fengið fríðindi, sem hæpið er, að ástæða hefði verið til að veita. Hér í þessari fsp. er vikið að einni tegund slíkra fríðinda, sem fjölmörgum embættismönnum eða opinberum starfsmönnum eru veitt, sem sé þau að hafa til ókeypis afnota bifreið, sem er eign ríkissjóðs og þeir mega nota eftir eigin geðþótta. Þar með er þó ekki sagt, að margir embættismenn eða opinberir starfsmenn hafi ekki fulla þörf fyrir að hafa til umráða bifreið á ríkisins kostnað, en þetta jafngildir því ekki, að svo að segja sérhver hærra settur embættismaður eigi að njóta slíkra fríðinda, og ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að í þessum málum sé stefnt í algert óefni. Sá hópur, sem þessara fríðinda nýtur, er orðinn óeðlilega stór, og margir þeirra hafa ekkert með slík tæki að gera og nota þau ekkert í þágu embættisins, heldur algerlega sem einkaeign, og þegar litið er yfir þennan hóp, er ekki svo að sjá, að neinni skynsamlegri reglu hafi verið fylgt um veiting þessara fríðinda. — Frumskilyrðið er að láta rannsaka, hvað hið opinbera á margar fólksbifreiðar, og er þá fyrst hægt að sjá, hvort ástæða væri til að grípa í taumana. — Af þessum ástæðum er þessi fsp. fram komin.