25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í D-deild Alþingistíðinda. (3903)

909. mál, bifreiðaeign ríkissjóðs, opinberra stofnana og ríkisfyrirtækja

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Eins og ég hef áður vikið að, eru starfandi nokkrir menn í stjórnarráðinu, sem vinna að því að gera ýmsar athuganir á ríkisrekstrinum, sem gætu orðið til ábendingar um sparnað á ríkisrekstrinum, og með það fyrir augum er þeirra starf hafið. Þeir hafa líka það mál með höndum að rannsaka opinbera bifreiðaeign og notkun á þeim tækjum. Hins vegar hafa þeir enn ekki skilað áliti sínu, svo að mér er ekki kunnugt um nema lítinn hluta þessara athugana í einstökum atriðum. En nú hefur þessi fsp. fram komið, og taldi ég rétt að svara því, sem hægt væri í þessum efnum á þessu stigi málsins án þess að fara fram á frest, þangað til sparnaðarn., sem svo hefur verið kölluð, hefði skilað áliti sínu um notkun opinberra bifreiða. Ég vil benda á það, að þær upplýsingar, sem ég hef hér í höndunum, geta vel verið þannig, að þær þurfi áréttinga við síðar meir, og sá embættismaður, sem ég hef beðið að afla þeirra upplýsinga, sem beðið er um í bili, tekur fram í bréfi sínu, að þær upplýsingar, sem hér liggja fyrir, séu frá sparnaðarn., en getur þess um leið, að n. hafi enn ekki lokið gagnasöfnun, hvað bifreiðarnar snertir, og kunni því að vanta eitthvað af bifreiðum á þessa skrá. Skráin er hér fyrir hendi og vil ég líka taka það fram, að hugsazt getur, að í einstökum tilfellum sé ekki um fólksbifreiðar að ræða. Það er ekki getið um það, en í sumum tilfellum getur verið um jeppabifreiðar að ræða, sem taldar eru sem fólksbifreiðar á skránni. Í þessari skrá segir, að forsetaembættið hafi 2 fólksbifreiðar, auk þess sem Bessastaðabúið hafi eina vörubifreið. Stjórnarráðið er hér talið með 3 bifreiðar, þar af hefur atvmrn. 1 bifreið, sem notuð er af fulltrúa í landbrn., sem hefur það sérstaka verk með höndum að líta eftir ríkisbúunum. Þá hefur forsrn. og utanrrn. hvort um sig eina bifreið, sem notaðar eru af viðkomandi ráðherrum. Bifreiðaeftirlitið er hér talið með 7 bifreiðar, þar af Vesturlandsumdæmi 2, Akureyri 1 og Reykjavík 4. Síðan kemur biskup með 1, borgarfógeti 1, borgardómari 1, háskólinn 1, hæstiréttur 1, lögreglustjórinn í Reykjavík 9, en af þeim er vafalaust eitthvað jeppabifreiðar, fræðslumálastjóri 2, aðra notar fræðslumálastjóri sjálfur, en hina íþróttafulltrúi, útvarpið 6, þar af 1 jeppi á endurvarpsstöðinni á Eiðum, 1 jeppi v/fréttastofu, 2 v/stöðvarinnar á Vatnsendahæð, 1 v/magnarasals og 1 v/viðgerðarstofu, póststofan í Rvík 2, sakadómarinn 4, sauðfjárveikivarnir 1, skipulagsstjóri 1, skógrækt ríkisins 3, húsameistari ríkisins 2, tryggingastofnunin 1, vegagerðin 4, veiðimálastjóri 1, raforkumálastjóri 1, áfengisverzlunin 1, lyfjaverzlunin 1, atvinnudeildin 2. Eru þetta samtals 59 bifreiðar, og er þar a. m. k. 1 vörubifreið og eitthvað af jeppabílum, en eins og ég tók fram, er þessari rannsókn sparnaðarn. ekki lokið, og má því vel vera, að eitthvað kunni að bætast við þessa skýrslu síðar meir, og enn fremur, að fleiri upplýsinga sé þörf í þessu máli, eftir því sem mér skilst á nm. Mun ég svo sjá um, þegar þær liggja fyrir, að þær komist til fjvn. eða Alþ., ef svo ber undir.