25.02.1948
Sameinað þing: 47. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í D-deild Alþingistíðinda. (3905)

909. mál, bifreiðaeign ríkissjóðs, opinberra stofnana og ríkisfyrirtækja

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Þessi fsp. hv. 4. þm. Reykv. (GÞG) og hv. 1. þm. Rang. (HelgJ) minnir mig á gamalt umtal, þegar þessi bílanotkun hins opinbera hófst. — Það vorum við Tryggvi Þórhallsson, sem stóðum fyrir því á tímabilinu 1928–1932, að ríkisstj. eignaðist 3 bíla„ og sömuleiðis var biskupi, lögreglustjóra, vegamálastjóra, húsameistara og ráðunautum Búnaðarfélags Íslands séð fyrir bifreiðum. Vil ég í þessu sambandi beina því til hæstv. fjmrh., að það var talinn vera nokkur óþarfi, að landið ætti þessar bifreiðar, og mætti þetta töluverðri gagnrýni, en það hefur komið í ljós, að þessi framkvæmd hefur verið í fullu samræmi við kröfur tímans, en hitt er svo annað mál, að ég hygg, að þessi þróun sé önnur en hún hefði átt að vera. Á þessum bifreiðum var alger ríkisútgerð fyrstu árin, og á þeim voru með beztu bílstjórum landsins, er nú vinna við bifreiðaeftirlitið. Hygg ég, að ekki sé hægt að ná þeim tilgangi, sem vakir fyrir fyrirspyrjendum, sem sé að lækka bifreiðakostnað hins opinbera, nema með því að taka upp það fyrirkomulag, sem var hér á þessum málum áður og var þannig að hafa ákveðna tölu bíla fyrir helztu embættismenn landsins með ákveðnum, völdum bílstjórum. Það getur vel verið, að þetta kunni að þykja fátæklegt, en þetta hygg ég einustu leiðina til að ráða bót á núverandi ástandi í þessum efnum og að þannig mætti lækka stórkostlega tölu bifreiða ríkis og ríkisstofnana frá því, sem nú er.