10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í D-deild Alþingistíðinda. (3922)

174. mál, bein Jóns biskups Arasonar og sona hans

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Það hefur vaknað hér á Alþ. allmikill áhugi á því, að minnisvarði Páls Stígssonar, sem stóð að Stóradómi, væri ekki fluttur úr Bessastaðakirkju, og urðu allmiklar umræður um málið, en bak við þær umr. stóð prófessor og dr. Guðbrandur Jónsson, sem lætur sér mjög annt um fornminjar, og varð þetta allt til þess að vekja áhuga manna á fornminjauppgrefti, sem grunur lék á, að hann hefði verið riðinn við. Guðbrandur Jónsson hefur nú játað að hafa tekið bein Jóns Arasonar fyrir 30 árum úr Hólakirkjugarði og flutt þau hingað til Rvíkur og ráðstafað þeim. Þegar ég fékk vitneskju um þetta, sneri ég mér til fornminjavarðar og innti hann eftir upplýsingum um málið. Hann sagðist hafa verið erlendis 1918, eða árið sem Guðbrandur gróf upp beinin, og kvað hann Pálma Pálsson hafa gegnt störfum sínum á meðan. Til hans kom Guðbrandur Jónsson og bað um leyfi til þess að rannsaka grunn hinnar gömlu Hóladómkirkju. Ekki segist þjóðminjavörður vita til þess, að hann fengi til þess leyfi þáverandi ráðherra, Jóns heitins Magnússonar. Síðan segir hann, að Guðbrandur hafi komið með mannabein með sér suður, sem hann annars hafði ekkert leyfi til að taka, og hafi beinin síðan að mestu verið í hans vörzlu, og áleit fornminjavörður, að Guðbrandur hefði e. t. v. sent eitthvað af beinunum til Ameríku, en mundi síðan hafa ráðstafað þeim eitthvað öðruvísi.

Allar þær upplýsingar, sem fyrir liggja um málið, gera skýringar Guðbrands mjög ósennilegar. Hann segist hafa haft leyfi frá Jóni Magnússyni, og ætti að athuga, hvort í skjölum ráðuneytisins fyndist eitthvað um það. Sonur Pálma Pálssonar segist aldrei hafa heyrt föður sinn tala um það leyfi. Þá er ósennilegt, að legið hafi fyrir vitneskja Sigurðar Sigurðssonar, skólastjóra á Hólum, sem þá var, því að Helga dóttir hans, sem þá var vön sð sýna gestum kirkjuna, sagðist aldrei hafa heyrt föður sinn minnast á, að beinin hefðu verið tekin. Má því gera ráð fyrir, að allar skýringar Guðbrands séu rangar og að hann hafi tekið beinin í leyfisleysi. Hafa merkir Skagfirðingar, t. d. sumir, sem verið hafa þm. þeirra, ekkert vitað um málið. Svo mikil leynd hefur hvílt yfir því.

Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta meira að svo stöddu, en bíð svars hæstv. ráðherra.