10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3925)

174. mál, bein Jóns biskups Arasonar og sona hans

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar ég varð skólastjóri á Hólum árið 1920, vissi hver maður í Skagafirði um þetta beinamál. Og 1918, þegar Guðbrandur vann að greftinum, var Sigurður skólastjóri heima allt sumarið. Í minni skólastjóratíð, laust eftir 1920, komu nokkrir Akureyringar í heimsókn, þar á meðal ritstjóri Íslendings, Gunnlaugur Tryggvi, og sagði ég honum frá beinunum og kvaðst halda, að þau hefðu verið tekin í heimildarleysi. Skömmu síðar kom löng grein í Íslendingi, sem hv. þm. S-Þ. las, — því að honum var hún kunnug, er hann nokkru síðar gisti hjá mér að Hólum, — þar sem athafnir Guðbrands voru taldar óheppilegar og óviðeigandi. Síðan kom í Íslendingi önnur grein um málið, skrifuð af Guðbrandi Jónssyni, þar sem hann telur sig hafa haft fullar heimildir til að grafa upp beinin, og féllu þá niður blaðaskrif um málið. Þetta er því ekki í fyrsta skipti, sem mál þessi eru opinberlega rædd, og skil ég ekki, hví hv. þm. S-Þ. hefur ekki tekið málið fyrr upp, t. d. meðan hann sjálfur var kirkju- og kennslumálaráðherra.