12.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í D-deild Alþingistíðinda. (3931)

910. mál, Bessastaðastofa o.fl.

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins segja það, að hæstv. ráðh. hafa svarað skýrt og skilmerkilega og bætt úr því, sem Alþ. hefur látið sér yfirsjást, að láta þetta mál koma til ákvörðunar á þinglegan hátt. Kannske hefur bréf forsrh. frá 1941 um, að gera mætti á Bessastöðum umbætur eins og þyrfti, villt valdamenn. Engin slík heimild hefur þó verið gefin og það, sem gert hefur verið, er því á ábyrgð þeirra, sem það hafa gert.

Nú er þessari miklu aðgerð á Bessastöðum lokið. Það er stór póstur, en ég endurtek að það, sem ég átel, er aðferðin og Alþ. og fyrrverandi stjórnir eiga sökina á því, að þannig hefur verið að farið, og málið ekki fengið þinglega meðferð, þótt verið geti, að fjárveiting hefði ekki fengizt fram, ef hennar hefði verið leitað. Nú er þó til mikið og fullskapað heimili handa æðsta manni þjóðarinnar.

Ég vil skjóta því til hæstv. atvmrh. og hæstv. forsrh., hvort ekki hafi vaxið sá stórhugur í sambandi við þetta mál, að sú smán verði ekki viðhöfð lengur að þm. séu húsnæðislausir og þurfi að keppa við skólapilta um stofur úti í bæ. Það hefur mikið verið lagt í Bessastaði og myndarlega gengið þar frá, en það stendur enn upp á okkur að búa eins myndarlega að alþingismönnum og stjórnarráðinu.