10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í D-deild Alþingistíðinda. (3935)

910. mál, Bessastaðastofa o.fl.

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér inn í þessar umr. Það er á mörkum, að fsp. hv. þm. S-Þ. geti talizt þinghæf. Allar þessar umr. eru með þeim hætti, að ég efast um, að þær gætu farið fram í nokkru nágrannalandi okkar. Ég sé ekki betur en að hv. þm. S-Þ. misnoti algerlega þann rétt, er var veittur á síðasta Alþ. með lögum, er heimila þm. að bera fram fsp. og vekja athygli á þýðingarmiklum málum. Mér virðast fsp. á þskj. 420 og á þskj., sem útbýtt hefur verið í dag frá hv. þm. S-Þ., séu á mörkum þess að vera þinghæfar. Ef þannig heldur áfram, þarf að taka til endurskoðunar fyrirspurnatímana.

Hv. þm. S-Þ. misnotar líka áberandi rétt þm. til þess að bera fram till. og grg. með þeim. Frá honum kemur hver till. af annarri með grg., sem eru heilar blaðagreinar, er ekki koma málinu við, en gerðar eru til þess að fá þær endurprentaðar í blöðunum, eins og stundum hefur tekizt.

Annars kvaddi ég mér nánast hljóðs til þess að tala um ummæli hv. þm. Borgf. út af alifuglarækt á Bessastöðum. Ég er nokkuð kunnugur þessum málum, og það er rétt, að alifuglahúsið varð hneykslanlega dýrt, en ég vil geta þess, að þetta er eina byggingin á Bessastöðum, auk kirkjubyggingarinnar, sem Gunnlaugur Halldórsson hefur ekki gert, og hann hefur enga umsjón haft með þessum framkvæmdum. Hann teiknaði að vísu þessa byggingu, en var fjarverandi, er byggingarframkvæmdir hófust. Húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, ber því ábyrgð á þessu. Þetta mun hv. þm. S-Þ. hafa frétt of seint og vakti því ekki athygli á því. (Forseti hringir.) Þetta er einungis á ábyrgð húsameistara ríkisins.

Annars get ég tekið undir það með hv. þm. Borgf., að það er vítavert, að þessar framkvæmdir skuli hafa átt sér stað án heimildar fjárveitingarvaldsins.