17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í D-deild Alþingistíðinda. (3939)

181. mál, njósnir Þjóðverja á Íslandi

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Ég hef nú mjög lítið að segja og fáar upplýsingar að gefa í þessu sambandi. Ég tók við starfi utanrrh. í apríl 1939, og hafa þá væntanlega verið komin hingað þrjú fyrstu bréfin, sem um er rætt í fyrirspurninni, og þessi bréf munu vera í utanrrn. Ég get ekki sagt annað en að þrjú fyrstu bréfin munu hafa verið komin áður en ég varð utanrrh., en ég held, að bréfin hafi fremur verið trúnaðarmál til þáv. forsrh., því að þau voru stíluð til hans, ef ég man rétt. Ég get ekkert annað sagt um þetta, né hvers vegna mál þetta var ekki rætt í utanrmn., og ég man satt að segja ekki heldur eftir því, hvenær ég fékk fyrstu vitneskjuna um þetta.

Hvað viðkemur 2. lið fsp. hv. þm. S-Þ., þá get ég þar engu svarað til heldur, því að sá maður, er síðan tók við lögreglustjóraembættinu, fór ekki utan að minni tilhlutan, heldur að tilhlutan þáv. dómsmrh., til þess að undirbúa sig, þessi ungi maður, undir sitt starf.