17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í D-deild Alþingistíðinda. (3943)

181. mál, njósnir Þjóðverja á Íslandi

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Mér finnst það heldur raunalegt fyrir hæstv. Alþ.,hv. þm. S-Þ. skuli ekki geta látið sér nægja að nota sitt málgagn, sem hann gefur út til rógsiðju sinnar, heldur skuli hann nota aðstöðu sína hér á hæstv. Alþ. til þess að bera fram fyrirspurnir í sama tilgangi. Og svo hefur kveðið mikið að þessum skrifum hér á þingi í grg. hv. þm. að þingheimur má skammast sín fyrir, að sá maður skuli vera á þingi. Og komið hefur til orða út af þessum ósköpum að banna að hafa grg. með þáltill. Þessu hef ég heyrt greinda menn halda fram. Slíkt er að mínum dómi ekki rétt. og verði menn heldur að þola þennan kross að hafa svona grg. og spurningar.

Nú er farið að nota fyrirspurnatímann á annan hátt en upphaflega var ætlazt til. Hér er um að ræða fyrirspurn, sem í raun og veru er ekkert annað en rógur, þar sem verið er að reyna að læða inn hjá þjóðinni, að fyrrv. dómsmrh. hafi leynt stjórnbræður sína og þjóðina alla einhverjum mikilsverðum upplýsingum, sem honum bárust 1939. Nú er mér vel kunnugt um, að hér er ekki um að ræða annað en rógburð, því að þessi bréf, sem hér er verið að tala um, voru ekkert leyndarmál, hvorki fyrir þjóðstj. né heldur stj., sem var þar áður. En bréfin voru ekki þannig vaxin, að ástæða þætti til að gera út af þeim sérstakar ráðstafanir. Menn geta lesið bréfin, því að þau hafa verið lesin upp hér í þinginu, til þess að rifja upp fyrir sér, hvað í þessum bréfum stóð.