17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (3949)

911. mál, rekstur Reykjavíkurflugvallar

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra froseti. Ég ætla ekki út í almennar umr. um flugmálin, þótt ástæða væri til þess út af því, sem fyrirspyrjandinn segir, þar sem hann tók fram, að menn væru ekki ánægðir með það, hvernig flugvöllurinn væri rekinn. Ég vil benda á, að samkvæmt því sem forráðamenn, sem tekið hafa þar við, hafa upplýst, er áætlunin, sem þar hefur verið gerð, á þann veg, að gert er ráð fyrir, að rekstrarhallinn verði 1700 þús. kr. lægri á árinu, sem nú er að byrja, en hann var 1946 og 1947. Og ég verð að segja það, að ef einhver hliðstæð breyting yrði annars staðar á starfsemi og rekstri hjá ríkinu, þá held ég, að margt mundi betur fara en í raun og veru á sér stað og margt mundi horfa til bóta. Sumt af þessu, sem gert er ráð fyrir að megi reikna til hagnaðar, er vegna þess, að búizt er við meiri tekjum af flugvellinum. En lækkun á rekstrarkostnaði er einnig fólgin í því, að í framkvæmdinni verður viðhafður meiri sparnaður vegna fækkunar starfsfólks og komið í veg fyrir alls konar eyðslu í þessum rekstri, sem furðulegur var í sumum greinum. Það væri hægt að upplýsa þetta nánar, en það er búið að upplýsa það áður. En hvað hv. þm. S-Þ. segir um þetta, veit ég ekki, og ég ætlast ekki til af honum, að hann viðurkenni nokkuð, sem ég geri, eða menn, sem ég hef ráðið til þess.

En fyrsta spurningin er: Hver voru útgjöld og tekjur af flugvellinum í jan. 1948? Samkv. skýrslunni, sem ég hef fengið, voru útgjöldin kr. 95176,46, en tekjurnar kr. 56294,45. Spurning: Hve margar útlendar vélar komu á völlinn á þessum tíma, og hver var hagnaður af þeim? Á vellinum lentu erlendar vélar 7 sinnum í janúar og greiddu kr. 1485,00 í lendingargjöld. Spurning: Hve margar íslenzkar vélar komu á völlinn? Íslenzkar vélar lentu í 291 skipti á völlinn í janúarmánuði.

Þá er spurt: Hve margir fastráðnir menn unnu þar í janúarmánuði, og hvernig skiptast þeir eftir starfsgreinum? Þeir skiptast þannig:

Við

flugumferðarstjórn

4

menn

slökkvistöðina

6

vélaverkstæðið

2

sjóflughöfnina

2

verkstjórn

2

benzínafgreiðslu

1

birgðavörzlu

1

Samtals eru það 18 menn, sem eru fastráðnir, en auk þeirra unnu í janúarmánuði 24 daglaunamenn og 4 vikukaupsmenn, og er skipting þeirra í starfsgreinar þannig: 17 verkamenn, 7 vélvirkjar og bifreiðastjórar, 4 trésmiðir, sem unnu að ýmiss konar lagfæringu. Kaup starfsmanna vallarins í janúar var kr. 89279,34. Við flugvallarstjórn vinna 14 menn, og greiðir Reykjavíkurflugvöllurinn kostnaðinn af 4 þeirra. Skrifstofukostnaður flugvallastjóra ríkisins er ekki talinn með að framan, þar sem erfitt er að segja um, hve mikið af þeim kostnaði ætti að færast á Reykjavíkurflugvöllinn og hve mikið á aðra flugvelli. Laun flugvallastjóra og starfsmanna hans á skrifstofunni og starfsmanna í sameiginlegri skrifstofu flugvallastjóra er sem hér segir:

Skrifstofa flugvallastjóra 3 menn

kr.

6475,00

Sameiginleg skrifstofa 4 menn

6750,00

Bifreiðastjóri og innheimta 1 maður

1875,00

Kynding og umsjón á húsi 1 maður

1650,00

Ræsting

350,00

Þessi skýrsla gefur í raun og veru enga mynd af þessum rekstri, þó að tekinn sé einn mánuður, en ég svara aðeins því, sem að er spurt.

Þá er spurt að því, hve mikið landið hafi fengið greitt á þessu ári úr alþjóðasjóðnum upp í skuld fyrir flugþjónustu og hve mikið enn er ógreitt til ríkissjóðs. Þetta er eiginlega sams konar fyrirspurn og hv. þm. S-Þ. hefur borið fram hér áður, en það er að vísu dálítið liðið síðan, og get ég vel svarað honum aftur. En málið horfir þannig við, að það er samningur um, að alþjóðaflugmálastofnunin borgi 95% af kostnaðinum við Loranstöðina í Vík.

Frá því stöðin var afhent Íslendingum þann 7. nóv. 1946 og til 31. des. 1947 greiddi alþjóðaflugmálastofnunin ICAO 79555 dollara fyrir þjónustu stöðvarinnar. Skilagrein hefur ekki borizt fyrir 4500 dollurum af ofangreindri upphæð. Fullt samkomulag hefur náðst um rekstur stöðvar þessarar, og er alþjóðatillag til rekstrar stöðvarinnar 6000 dollarar á mánuði. Ísland tekur þátt í þeirri upphæð, sem nemur 5%. Greiðsla fyrir mánuðina janúar og febrúar hefur enn ekki borizt. Svo er fjarskiptaþjónustan. Ísland hefur gert kröfu til greiðslu fyrir flugfjarskiptaþjónustuna, sem innt er af hendi í stöðvunum á Rjúpnahæð, í Gufunesi og flugturninum á Reykjavíkurflugvellinum ásamt þjónustu veðurstofunnar, fyrir umferðarstjórn á gæzlusvæði Íslands á Norður-Atlantshafi. Kröfur okkar eru sem hér segir: Fyrir árið 1946 316374,52 dollarar, fyrir árið 1947 577104,13 dollarar. Hlutfallslega er þá krafa okkar fyrir janúarmánuð og febrúar 1948 96184 dollarar, eða samtals: 989662,65 dollarar. Innifalið í ofangreindum upphæðum eru tryggingargjöld fyrir starfsmenn stöðvanna og skrifstofukostnaður þeirrar stofnunar, sem um þetta á að sjá.

Ekki hefur fengizt nein lausn á máli þessu enn sem komið er. Ástæða er þó til þess að vona, að kröfurnar verði greiddar, þar eð Bandaríkjamenn hafa heitið aðstoð sinni í því sambandi. En Bandaríkin munu verða stærsti greiðandinn, því að þau greiða 70% af kostnaðinum við Loranstöðina. Geta má þess, að formaður flugráðs, Agnar Kofoed-Hansen. er nú sem stendur í Bandaríkjunum og mun m. a. athuga þetta mál.

Ég vil lýsa því yfir, að það er alveg óhugsandi, að íslenzka ríkið geti haldið áfram þessari þjónustu, nema því aðeins að þessi endurgreiðsla fáist. Hins vegar er ekki því að leyna, að það yrði talsvert áfall, ef sú þjónusta legðist niður. Það er áreiðanlegt, að allt hefur verið gert, sem unnt er, til þess að herða á því máli, og ekkert tækifæri látið ónotað til þess að þoka því áleiðis.

Þá er hér spurt: Hve mikið tap hefur ríkið nú þegar beðið við eign og rekstur gistihússins á flugvellinum? Frá því að hótelið var yfirtekið þann 1. maí 1946 og þar til einstaklingi var fenginn í hendur rekstur þess, þann 1. okt. 1947, var rekstrarhalli hótelsins kr. 214183,88. Kostnaður við innréttingu, endurbætur og viðgerðir var á sama tímabili kr. 249887,83. Brunabótaverð hússins er kr. 845100 og innbú er vátryggt fyrir kr. 500000.

Út af því, sem hv. þm. sagði um hótelið, skal ég taka það fram, að ég lagði það fyrir flugráð að taka þá þegar allan rekstur flugvallarins til ýtarlegrar endurskoðunar. Þá var öllum starfsmönnunum sagt upp til þess að þeir væru lausir. Sérstaklega var lagt fyrir flugráð að taka fyrir rekstur hótelsins líka. Þeir komu nú ekki hótelinu af sér fyrr en 1. okt., og hef ég ekki fengið neina skýrslu yfir rekstur hótelsins á þeim tíma og get því ekki vitað um það.

Þá er það spurningin, hve mikið af lausum munum Bretar létu samkvæmt úttektarskrá fylgja gistihúsinu, þegar þeir afhentu það. Þetta er næsta fyrirspurnin, og hún sýnir, hvernig þessi fyrirspurnatími er notaður, ekki vegna þess, að ekki væri fróðlegt að vita þetta, heldur vegna þess, að það væri ekki hægt að telja þetta upp. Ég hef hér lista. Hann er 4 vélritaðar síður, og svo hef ég annan álíka lista yfir koddaver, sængurver, steikarpönnur, könnur o. s. frv., sem til var, þegar einstaklingur tók við hótelinu. En þó að ég legði út í að lesa þennan lista, sem tæki allan daginn, þá væru ekki neinar upplýsingar í því.

Þá er hér næsta spurningin (3. b) : „Hve mikið var eftir af þessum lausu munum, þegar ríkið lánaði einstökum manni gistihúsið?“ Um þetta segir skrifstofa flugvallastjóra, að er tekið var við hótelinu,var lausaféð keypt fyrir 125 þús. kr., og er hótelið var afhent einstaklingi, var gerð nákvæm skrá yfir lausafé þess, en eins og áður er sagt, var ómögulegt að vita, hvað af mununum voru nýir, nema með því að fara yfir allt bókhald hótelsins frá byrjun. Af þessum ástæðum er óframkvæmanlegt að svara þessari fyrirspurn.

Hins vegar skal ég segja það út af fyrirspurninni í c-liðnum, að flugráðið hefur í samráði við mig falið mönnum að fara gegnum reikningana fyrir árin 1945 og 1946 til þess að fá yfirlit um reksturinn og það sem ýtarlegast og gleggst. Ég fékk afrit af þessum reikningum, en flugráðinu voru afhentir þeir fyrst og fremst. Það kemur fram, að þarna hefur átt sér stað alveg óverjandi sukk. Nú bíð ég eftir till. flugráðs um það, hvað það telji, að eigi að gera í þessu máli, en ég geri ráð fyrir. að óskað verði eftir opinberri rannsókn. a. m. k. út af rekstri hótelsins. Sem sagt, ég bíð eftir þessari skýrslu, en tel óframkvæmanlegt að svara a- og b-liðunum öðruvísi en ég hef gert, enda skortir mig gögn til þess á þessu stigi, en það verður sjálfsagt tekið til athugunar ásamt öðru, sem tilheyrir þessum rekstri.