06.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

126. mál, réttindi Sameinuðu þjóðanna

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar Ísland á sínum tíma gerðist meðlimur Sameinuðu þjóðanna, þurfti að undirrita sérstakan sáttmála, sem þær þjóðir höfðu gert með sér. Í þessum sáttmála var meðal annars skuldbinding, sem allir meðlimir Sameinuðu þjóðanna urðu að taka á sig um að tryggja stofnun Sameinuðu þjóðanna og starfslið hennar öll sérréttindi, sem nauðsynleg gætu talizt, til þess að stofnunin gæti náð tilgangi sínum og unnið að starfi sínu. Í sáttmálanum var ákveðið, að alþjóðaþingið skyldi útfæra það nánar, hver þessi sérréttindi skyldu vera. Og á þingi sínu 1946 gengu Sameinuðu þjóðirnar frá reglugerð um þessi sérréttindi. Reglugerðin hefur síðan verið send til þjóða, sem ern meðlimir Sameinuðu þjóðanna, m.a. til ríkisstj. Íslands. Ríkisstj. hefur athugað þennan samning og getur fyrir sitt leyti fallizt á, að hann verði gerður, eða hefur ekkert við hann að athuga. Hins vegar hefur íslenzka ríkisstj. samkv. l. ekki heimild til þess að staðfesta þennan samning án sérstakrar lagaheimildar. Hæstv. forsrh. hefur því borið fram frv., s~m hér liggur fyrir, þar sem hann óskar eftir heimild Alþ. fyrir því, að Ísland megi gerast aðili að þessum samningi. Frv. var vísað til allshn., sem hefur kynnt sér efni þess og rætt það í einstökum atriðum. Allshn. er sammála um, að rétt sé fyrir Íslendinga að staðfesta þennan samning og að í honum felist ekki nein þau ákvæði, sem séu þess eðlis, að við getum ekki á samninginn fallizt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þennan samning í einstökum atriðum. Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli á, að samningurinn virðist tryggja Sameinuðu þjóðunum og starfsmönnum stofnunarinnar þau réttindi, sem sendiherrar erlendra ríkja njóta, þó með þeim breytingum, sem af eðli málsins leiðir. Það virðast ekki felast nein þau ákvæði í þessum samningi, sem gangi óeðlilega langt í þessum efnum eða stofni okkar réttindum á nokkurn hátt í háska.

Allshn. hefur því orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. og ríkisstj. þannig veitt heimild til þess að láta þennan samning öðlast gildi hér hjá okkur.