13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

23. mál, bændaskólar

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég tek fullkomlega þátt í undrun hv. þm. S.– Þ. út af þessu frv. Ég hélt eins og hann, að fremur væri þörf fyrir að koma með frv. í þá átt að auka verklegu kennsluna í búnaðarskólunum heldur en hitt. Ég skal taka það fram, að ég þekki ekki mikið inn á þetta, en ég hef þó rætt þetta við skólastjóra þessara skóla, og tel ég, að þörfin sé fyrst og fremst sú að auka verklegu kennsluna.

Í 7. gr. frv. er rætt um þær bóklegu námsgreinar, sem á að kenna í búnaðarskólunum, og þær eru hvorki meira né minna en 20–30 í tveggja vetra skóla. Það er þá íslenzka, stærðfræði, innan sviga talnafræði, — og hef ég ekki heyrt það orð notað í þessari merkingu. Björn Gunnlaugsson mun þó hafa notað það um algebruna sína —. flatar- og rúmmálsfræði, búreikningar, þjóðfélagsfræði, búnaðarhagfræði, búnaðarsaga og landbúnaðarlöggjöf Íslands og nágrannalandanna, búnaðarlandafræði, grasafræði, eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, líffærafræði og lífeðlisfræði búfjár, búfjárfræði, mjólkurfræði, arfgengisfræði, verkfærafræði, jarðræktarfræði og svo náttúrlega danska. Enn fremur skal kenna söng, íþróttir, leikfimi og teikningu. Svo er þess lítillega getið, að það eigi að kenna nemendunum eitthvað verklegt.

Ég er öldungis hissa á þessu, og eitt af því, sem vekur undrun mína, er sú staðreynd, að hér er starfandi n., sem hefur verið falið að endurskoða alla skóla allt frá barnaskólum. Þessi n. hefur nú þegar endurskoðað barnaskólana, gagnfræðaskólana, menntaskólana, kennaraskólann og húsmæðraskólana, og hafa verið afgreidd l. um þessa skóla. Þá var komið að sérskólunum. N. hefur tvísent bréf til allra skóla varðandi sérnámsefnin. Henni var ljóst, að það var þeirra verkefni að koma með sérnámsverkefnin. Hennar verkefni var að tengja þetta saman. Hvað iðnaðarmennina snertir, hafa þeir tekið þessu vel, og bar það þann árangur, að nú er langt komið frv. um iðnaðarskóla. Frá búnaðarskólunum höfum við ekkert heyrt, og virðist sem þeir vilji ekkert við n. tala. Er svo að sjá sem stj. sé á sömu skoðun, þar sem ekkert hefur verið við n. talað um þetta. Vekur þetta því meiri undrun mína, sem ég veit ekki annað en að n. starfi í góðri samvinnu við hæstv. menntmrh., sem er yfirmaður hennar.

Í sambandi við það, að n. var að undirbúa störf sín, virðist mér eins og hv. þm. S–Þ., að inntökuskilyrði í þessa skóla ættu að vera nokkuð ströng, miðuð við miðskólapróf. Þar ætti að fara fram verkleg kennsla og bókleg eftir því. sem skólarnir fjalla um, og svo það, sem ég álit, að kenna ætti í öllum skólum, sem sé íslenzk tunga.

Ég gat ekki látið hjá líða að láta í ljós undrun mína á tvennu: Í fyrsta lagi, að stj. kom fram með þetta frv. fram hjá n. og að skólarnir hafa ekki svarað n. um upplýsingar. Í öðru lagi er ég sérstaklega undrandi yfir meginstefnu frv., sem er sú að stytta verklega námið, og er ég sannfærður um, að sú stefna er ekki rétt.

Hæstv. ráðh. lagði til, að frv. yrði vísað til landbn. Ég legg til, að því verði vísað til menntmn. Þetta er að vísu sérskóli, og hvaða skóli sem er þarf að fá upplýsingar frá sérfróðum mönnum, en þetta er fyrst og fremst skólamál. Og þegar verið er að byggja upp öll okkar skólamál, er sjálfsagt, að þau fari gegnum eina og sömu þingn. Ég legg því til, að málinu verði vísað til menntmn.