13.10.1947
Neðri deild: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

23. mál, bændaskólar

Jörundur Brynjólfsson:

Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið, en sökum þess, að inn í þessar umr. hefur dregizt bændaskóli Suðurlands og það á þann hátt eins og það gæfi tilefni til, að breytt yrði ákvörðun Alþingis um þetta mál, get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð.

Eins og hæstv. landbrh. hefur sagt, er tilefni þessa frv. aðeins það að breyta nokkuð til á Bændaskólunum, Hólum og Hvanneyri. Lýtur það sérstaklega að verklega náminu. Hæstv. ráðh. hefur einnig gert grein fyrir því, hvers vegna þetta væri borið fram í þeim búningi, sem það er, að það hefur verið fellt inn í þau lög, sem um þetta gilda, og borið þannig fram. Hér er ekki um nýmæli að ræða, nema það, sem þegar hefur verið gerð grein fyrir. Svo kemur það fram, að menn líta nokkuð öðrum augum á bændafræðsluna heldur en bæði var gert, þegar l. um hana voru sett, og eins þegar l. um bændaskóla Suðurlands voru sett. Alþ. hefur það vitanlega á valdi sínu að breyta l. og breyta sínum fyrri ákvörðunum, ef ástæða er til, en það finnst mér bera vott um næsta mikinn hringlandahatt, ef ætlunin er að fara á árs fresti að breyta l. um þetta. Það er nú ákveðið, að bændaskólarnir skuli vera 3. Síðan það var gert, hefur engin breyting orðið á Hólum eða Hvanneyri. Húsrúmið hefur ekkert stækkað frá því, sem þá var. Skólarnir eru nokkurn veginn fullskipaðir. Þeir rúma ekki nema um 70 nemendur. Ef gera má ráð fyrir, sem ég hef reyndar ekki reiknað út, að bændur búi að meðaltali um 20 ár, mætti ætla, að 500–600 bændur nytu hinnar almennu fræðslu, því að nokkuð af húsrúmi skólanna yrði notað fyrir framhaldsdeildir. Það skarðar þá í húsrúmið um 10–20 pilta, og mér er sagt, að í ráði sé, að nemendur séu í eina tvo vetur í framhaldsdeild, svo að ég hygg ekki of í lagt að gera ráð fyrir, að bændaskólarnir tveir geti tæpast tekið við meira en sem svarar 50 nemendum til almennrar fræðslu.

Eftir frv. er gert ráð fyrir, að frekar sé dregið úr verklegu kennslunni en hitt. Þetta mun vera vegna þess, að piltar hafa tæpast fengizt til að dveljast við verklega námið sumarlangt. Nú er það svo, að undanfarin ár hefur verið gnægð atvinnu og hátt kaup, og hefur það freistað pilta til að sitja við þann eldinn sem bezt brennur, án tillits til framtíðarinnar, og um flesta er það svo yfirleitt, að þeir vilja sitja við þann eldinn. Þetta, hygg ég, að eigi sinn þátt í því, að bændaskólarnir hafa ekki verið betur sóttir hin síðari ár. Og þó að við verðum að vona, að hér verði áfram fjörugt atvinnulíf eins og að undanförnu, þá má þó vera, að það verði með nokkuð öðrum hætti, að atvinnan verði meira til að efla okkar eigið atvinnulíf en verið hefur, og mætti þá svo fara, að aðsókn yrði meiri að þessum skólum.

Það er rétt að líta á það í þessu sambandi, að mér finnst það sæta furðu einmitt nú á þessum tíma eftir þá breytingu, sem orðin er á okkar búnaðarháttum, að fram skuli koma hér á Alþ. hugmyndir, er gætu orðið til að draga úr bændamenntun, ef þær yrðu framkvæmdar. Það er að vísu erfitt að sjá fram í tímann, hvernig atvinnulíf okkar verður, en eitt er víst, að hér eftir verða gerðar harðari og meiri kröfur til bænda, að þeir séu starfi sínu vaxnir og hafi til að bera meiri kunnáttu og hæfni en verið hefur. Aðstaða bænda til að búa verður áreiðanlega sú, að þeir fá minna vinnuafl til daglegra starfa en hingað til. Bændur þurfa því meiri og fjölbreyttari þekkingu, ekki eingöngu verklega, heldur einnig bóklega þekkingu, sem grípur inn í starf þeirra enn meir en verið hefur. Og nú er verið að taka fleiri og fjölbreyttari tæki í notkun við landbúnaðarstörf en nokkru sinni hefur þekkzt hér, og það sjá allir, hve nauðsynlegt er, að bændur hafi sem bezta þekkingu á þeim. Og þeir þurfa á mikilli hæfni og tækni að halda til að láta þessi tæki endast sem bezt og halda þeim við, og til þess þarf fræðslu og æfingu í starfi. Þá gera neytendur meiri kröfur til bænda um vöruvöndun en nokkru sinni áður, og í sambandi við vöndun framleiðslunnar er þörf mikillar þekkingar, til að bændur geti orðið vandanum vaxnir. Þessi breyting er sumpart þegar orðin og sumpart er hún að verða, og á sama tíma er ekki örgrannt um, að hér séu komnar fram tillögur, sem miða að því að draga úr bændafræðslunni, og gegnir það mestu furðu. Vera má, að því verði til svarað, að þetta frv. gefi ekki tilefni til slíkrar gagnrýni, en þó er hér verið að draga heldur úr verklegu fræðslunni, og hefði þó verið þvert á móti ástæða til að auka hana. En ef ég mætti velja um almennu bændafræðsluna og framhaldsnám bændum til handa, ef við værum ekki menn til að hafa hvort tveggja í góðu lagi, þá mundi ég heldur kjósa, að almenna fræðslan væri í góðu lagi. Að vísu er það vel farið, að menntun þeirra, sem leiðbeina bændaefnum, sé í bezta lagi, leiðbeinandinn getur unnið ómetanlegt gagn, ef hann hefur bæði áhuga og menntun, en það verða áreiðanlega því meiri not að góðum leiðbeinanda, sem bændastéttin er almennt menntaðri og þeim vanda vaxin að hagnýta sér það, sem leiðbeinandinn ber fram. Ég álít því, að aðaláherzluna beri að leggja á hina almennu menntun bænda.

Hvað áhrærir svo bændaskóla Suðurlands, finnst mér illa með það mál farið (þó að þetta frv. gefi ekki tilefni til þessara ummæla), ef nú á að fara að breyta ákvörðun þingsins fyrir nokkrum árum og skerða fjárframlög til þeirrar fyrirhuguðu framkvæmdar. Ég tel það alveg fráleitt, og liggur þá við, að búnaðarfræðslan hér á landi eða aðstaða til hennar sé komin niður á það stig, sem hún var á fyrir síðustu aldamót. Hér á þó hlut að máli önnur stærsta stétt landsins, og framtíðaröryggi þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á því, að hafa góðan landbúnað. Og þetta gerist hér á sama tíma sem nágrannaþjóðir okkar auka bændamenntun sína stórkostlega. Nú þegar er hafinn lítils háttar undirbúningur að bændaskóla Suðurlands, og þó að sumum kunni nú að vaxa í augum, hvað hann kann að kosta, þá held ég, að mönnum væri hollt að hugleiða í því sambandi, að við mundum ekki vera komnir mjög langt áleiðis með tilliti til verklegra umbóta, ef alltaf hefði verið byrjað á því að gera dæmið upp fyrir fram, þegar átt hefur að hefja einhverja verklega framkvæmd, reikna út, hver kostnaðurinn verði, áður en lýkur, og láta sér vaxa það svo í augum að byrja aldrei á verkinn. Hversu haldgott væri t.d. vegakerfi okkar nú, sími og brýr, ef við hefðum reiknað út fyrir fram, hvað þetta mundi nú allt verða dýrt að lokum, og hefðum þá auðvitað hætt við að leggja í framkvæmdirnar? Ef sá háttur hefði verið hafður, mundu seint hafa verið teknar ákvarðanir um slíkar umbætur. Það á ekki við um fyrrnefndar framkvæmdir og því síður, hvað bændaskóla Suðurlands áhrærir.

Ég hefði búizt við öðru í þessu efni hér á Alþ. en því, sem hér hefur verið rætt um, að draga úr menntun bændastéttarinnar. Ég held, að það væri sæmilegra fyrir okkur hér að hlynna að henni eftir föngum. Störf hennar eru svo þýðingarmikil fyrir þjóðina, að okkur væri sæmra að reyna frekar að búa vel að henni heldur en gera tilraun til að draga úr menntun hennar og láta okkur í léttu rúmi, hvaða menntun bændur fá. Vera má, að ungmennum í þessum skólum sé svo farið í seinni tíð, að þeir hafi verið eitthvað veigrunarsamari en áður. En ég sé enga ástæðu til að leggja sérstaka áherzlu á það. Ég hygg, að það sé stundarfyrirbæri. Það má vera, að umrót undanfarinna ára hafi haft einhver áhrif á því sviði eins og í mörgum öðrum efnum. En það vil ég vona, að þó að þjóðin kunni að hafa verið eitthvað miður sín á þessum byltingatímum, sem eru svo ólíkir því, sem við höfum átt að venjast, að þá komi hún aftur til sjálfrar sín og verði þess megnug að færa sér þessa fræðslu og aðra í nyt.

Ég hefði nú viljað vænta þess af hv. d., að hún gerði þá bráðabirgðabreytingu á þessum l., er hæstv. ráðh. leggur til, en dragi ekki inn í þetta mál önnur efni og sízt þau, er orðið gætu til að tefja eða spilla menntun bænda.