10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

23. mál, bændaskólar

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það var eitt atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv.. sem ég vildi nefna, en það er fullyrðing hans um, að búnaðarskólarnir fari í hundana, verði verklega námið stytt. Þetta er ofmælt. Það hefur komið fyrir frá fyrstu tíð búnaðarskólanna, að bláþræðir hafa verið í aðsókn að þeim. Byrjað var með verknámsbúnaðarskóla, og áttu nemendur þá að vinna að sem flestu, sem að búskap laut í þann tíð, með minni háttar bóklegri kennslu. Raunin varð sú, að þetta fyrirkomulag fór í rústir. Fólk fékkst ekki til að sækja búnaðarskólana á þessum grundvelli, svo að breyta varð til, og engin verknámsskylda var höfð. Sama er að gerast nú, að ákvæðið frá árinu 1938, að skylda nemendur að stunda verknám, hefur hindrað aðsókn að skólunum. Síðan voru gerðar nokkrar undantekningar frá þessu, og er nú ekki seinna vænna, að bændasynir viti, að hverju þeir ganga, og sett sé í l., að verknámi sé hagað svipað því, sem hér er lagt til í frv. þessu, og ég mótmæli því, að skólarnir fari í hundana fyrir þessa eðlilegu breytingu. Að öðru leyti ber okkur ekki margt í milli, hv. 6. þm. Reykv. og mér.

Í raun og veru var ekki margt fleira í ræðu þm., sem ástæða er til að svara, en ef gengið væri út frá miðskólaprófi sem inntökuskilyrði, mundi aldur nemenda vera um 15–16 ár, ef þeir færu sjálfkrafa í bændaskóla eða annan sérskóla eftir því kerfi. Þess vegna er það ekki á sterkum rökum reist hjá hv. þm.