13.11.1947
Neðri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

21. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl.

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. — Milli umræðna hefur landbn. gert brtt. við þetta frv., sem er á þskj. 106 og útbýtt nú meðal dm. Þessi brtt. er fram komin vegna þess, að framleiðendur eggja og sölusamlag eggjaframleiðenda hefðu farið fram á það, að framleiðsluráð landbúnaðarins tæki að sér verðskráningu á eggjum á sama hátt og flestum öðrum landbúnaðarafurðum. Fulltrúi frá þessum samtökum talaði við landbrh. um að flytja þetta mál. Ráðh. talaði við landbn., og féllst n. á, að sjálfsagt væri að heimila í l., að hægt væri að koma eggjaframleiðslunni undir verðlagsákvæði þessara l. Varð samkomulag innan n., að hægt væri að gera það á þann hátt að bæta aftan við 34. gr. l. frá í fyrra um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu o.fl. Þessi málsgr., eins og hún hljóðar, er um það, að heimilt sé að ákveða með reglugerð, að sölusamlög eggja- og grænmetisframleiðenda geti komið undir verðlagsákvæði þarna. N. taldi, að úr því að farið væri að heimila, að undir ákvæði l. kæmi landbúnaðarframleiðsla, sem ekki var ákveðið fyrr, þá ætti það að taka meira en til eggjanna og þá sömuleiðis til grænmetis. Þó eru kartöflur verðlagðar af framleiðsluráði eins og nú er. Eins og till. ber með sér, þá er það á valdi landbrh. í samráði við framleiðsluráð að ákveða þetta.

Ég vil geta þess, að það er einnig ósk frá eggjaframleiðendum, að eiga fulltrúa í framleiðsluráði. N. taldi það ekki fært, að taka það upp að svo komnu máli, vildi hins vegar láta það fylgja, að rétt þætti, að þessir framleiðendur hefðu fulltrúa í framleiðsluráði, þegar verðlögð er þeirra framleiðsla, án þess að þeir hafi atkvæðisrétt. Það er ástæðulaust að taka það upp í l., en álit n. er, að það sé sett með reglugerð, ef það verður heimilað, sem hér er farið fram á.

Ég hef ekki fleira að segja, en mæli með, að þessi brtt. verði samþ.