05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

23. mál, bændaskólar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, og vil ég nú gera grein fyrir því. Ég get fallizt á fyrri brtt. um að setja hömlur við, hvaða hús séu reist, svo að slíkt verði ekki gert úr hófi fram. En fyrirvari minn er gerður vegna síðari brtt. meiri hl. n. að breyta tölu fastakennara úr 3 í 2. Mér hefði þótt sönnu nær, ef setja hefði átt varnagla gegn því, að of mörg kennaraembætti væru stofnuð, að sett hefði verið, að kennarar skyldu ekki vera fleiri en 3, heldur en að einskorða sig við að fækka þeim úr 3 í 2. Mér þykir n. skorða sér of þröngan hlöðubás með þessu, því að vitað er, að eftir því, sem menntagreinum fjölgar, eykst kennslan meir og meir, og gilda rök þessi um allar menntastofnanir. En slíkt getur ekki orðið við bændaskólana, ef einskorða á sig við 2 kennara, og þykir mér það of þröngt skorið. Legg ég því til, að ákvæði laganna standi, en get þó sætt mig við, að sett sé „ekki fleiri en 3“. Ég vil, að tillit sé tekið til þenslu skólanna og að kennsla sé aukin, og þá þarf 3 kennara, þar sem áður voru 2, og tel ég þetta næg rök.

Ég hef ekki ætlað að blanda mér inn í umræðurnar um frv. að öðru leyti, vil ekki hætta mér út á það hála svell. En þótt mörg álitamál séu í frv., mun ég greiða því atkvæði, því að með því er sýnd viðleitni til bóta, þótt gallað sé, en vera má, að reynslan sníði þá af. Þetta eina atriði í 15. gr., að veita fé í fjárlögum til framhaldskennslu, er óheppilegt, þar eð orðalag greinarinnar er mjög álappalegt og ekkert tekið fram, hvar slíkri deild skuli vera komið upp eða hvernig fyrirkomulag skuli vera. Ef einhver vill læra meira, er það gott og blessað, og hann á að eiga slíks kost. Höfuðatriðið fyrir bændaskólana er, að þeir geti veitt hverjum nemanda góða menntun og að piltarnir séu ánægðir, þegar þeir halda heim úr skólunum, og geti sagt við sjálfa sig: Ég fór ekki fýluferð á skólabekkinn — og geti sótt fræðslu til skólanna, þannig að þeir verði skólunum þakklátir ævilangt. Ég mun ekki fetta frekar fingur út í frv. Þannig löguð framhaldsdeild getur orðið góð, þótt svo sé til stofnað, Ég mun því fylgja frv. Fyrirvari minn er gerður vegna annarrar brtt., sem mér finnst óþörf.