05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

23. mál, bændaskólar

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við það, sem stendur á áliti landbn., að ég hafi óbundnar hendur í málinu.

Þegar þessu fm. var útbýtt hér á öndverðu þingi, hefði mátt ætla, að um verulegar breyt. væri að ræða á bændaskólalöggjöfinni. En við nánari athugun kom í ljós, að eiginlega var ekki nema um tvær breyt. að ræða. Önnur breyt. er sú að lögfesta styttingu á verklega náminu, þó að eiginlega sé heimild fyrir styttingu námstímans í núgildandi l. og það hafi verið praktíserað að undanförnu að hafa hann styttri. Hin breyt. er heimild sú í 15. gr., sem ráðh. er gefin til að stofna framhaldsdeild við einhvern bændaskólann.

Ég verð að segja það um fyrri breyt., styttingu verklega námsins, að í vissum tilfellum hefur hún nokkuð til síns máls. Það er ekki hægt að neita því skilyrðislaust, og að því leyti er ég ekki alveg sammála hv. 1. þm. N–M., sem er algerlega á móti þessari breyt. Hins vegar er ég honum alveg sammála um annað meginatriðið, sem kom fram í ræðu hans, að það þurfi að taka þessa skóla sem lið inn í skólakerfi landsins, en það hefur enn þá ekki verið gert, þó að skólalöggjöfin hafi verið samræmd á öðrum sviðum. En hvað viðkemur verklega náminu, þá bendi ég á þá staðreynd, að mörg ung bændaefni hafa þá aðstöðu, að allerfitt er fyrir þessa nemendur að vera að heiman allt sumarið, enda þótt þeir vilji og geti stundað eitthvert verklegt nám, og af þeim ástæðum er ég ekki með öllu á móti þeirri breyt. að stytta verklega námið. Hitt er annað mál, og það er alveg rétt hjá hv. þm.

N–M., að það er nauðsynlegt að auka verklegt nám þeirra, sem hafa hugsað sér að fara með stórar landbúnaðarvélar eða gerast einhverjir ráðunautar í jarðrækt, mælingum eða öðru slíku.

Að endingu vil ég segja það, að ég hef hér lýst afstöðu minni og því, að ég vildi ekki skrifa undir álit minni hl., hv. 1. þm. N–M., af því að ég taldi ekki rétt að skylda alla nemendur við bændaskólana til verklegs náms allan þennan tíma. En að öðru leyti er ég hv. þm. alveg sammála og álít, að bændaskólana eigi að taka inn í heildarskólakerfi landsins og til endurskoðunar í samræmi við það. Af þeirri ástæðu mun ég greiða atkv. með hinni rökst. dagskrá, af því að hún gerir ráð fyrir, að þessi athugun og endurskoðun fari fram og fyrirkomulagi bændaskólanna verði breytt til samræmingar heildarskólakerfinu.