15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

23. mál, bændaskólar

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Út af orðum hv. þm. Barð. um nýbýlastofnanirnar skal ég upplýsa, hvernig málin standa nú. Á Hvanneyri eru tveir kennarar, sem byggt hefur verið yfir af ríkinu, en hvorugur þeirra rekur bú. Aftur á móti var keypt næsta jörð við Hvanneyri, Bárustaðir, og þar býr nú leikfimikennarinn, sem jafnframt er ráðsmaður hjá skólastjóranum. Hann er ekki fastakennari, en fær samt sem áður þessi hlunnindi. Á Hólum hefur aftur á móti ekki verið byggt yfir neina kennara, en þeim er gefinn kostur á að hafa sína kúna hver og nokkrar aðrar skepnur eftir samkomulagi við skólastjórann, en leikfimikennarinn hefur fengið til afnota hálfa jörðina Hof, sem liggur undir Hóla, en hann er aðeins stundakennari. Af þessu sést, að núverandi fyrirkomulag er hvorki fugl né fiskur og fer aðeins eftir samkomulagi milli kennara og skólastjóra. Hins vegar tel ég enga þörf á 3. gr. og get fylgt hv. þm. Barð. í því.