15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

23. mál, bændaskólar

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Þótt í þessu frv. séu ákvæði, sem ég er ekki sem ánægðastur með, svo sem takmörkun kennarafjöldans í 4. gr., þar sem ég vildi hafa 3 eða að minnsta kosti allt að þrem í staðinn fyrir 2, þá mun ég reyna að sætta mig við það, og treysti mér ekki til að bera fram brtt. um þetta, því að mér skilst, að hún muni hljóta lítinn byr í deildinni. En það vildi ég segja um nýbýlastofnanir fyrir kennara, að beita má því ákvæði betur eða verr eftir því, hvernig á er haldið. Slík nýbýlastofnun ætti að vera gerð með hliðsjón af því, að þau komi að notum sem þáttur í skólakerfinu sjálfu. Það þarf bæði að kenna það stærra og smærra í búskapnum, og ef þessi heimild til að stofna nýbýli verður gefin, þá eru þeir góðu herrar ekki of góðir til þess að hafa þar eitthvað, sem nemendur geta lært af. Þetta vildi ég láta koma fram við umr., þótt ég hins vegar muni ekki bera fram brtt. um það. Hitt er svo annað mál, hvað skólinn hefur mikið land til að reyta sundur í nýbýli. Það hefur verið keypt jörð við Hvanneyri til nytja fyrir einn kennara, og vekur það athygli á því, að skólastaður þarf að vera ræktanlegur og fjölbreytilegur og viðlendur, því að ef möguleikinn til að stofna nýbýli fyrir kennara er fyrir hendi, þá er það mikið atriði, hvort jörðin hefur landrými og fjölbreytni til framtíðarathafna.