07.10.1947
Neðri deild: 4. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

13. mál, Landsbanki Íslands

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Í l. um Landsbanka Íslands eru ákvæði um það, hvernig seðlar bankans í umferð skuli tryggðir, hæði með gulli og innstæðum. Þegar þessar innstæður voru jafnmiklar og þær hafa verið á undanförnum árum, þá voru þær náttúrlega meir en nægileg trygging, eftir því sem l. um þetta ákveða. En eftir að erlendu innstæðurnar minnkuðu, kom svo s.l. sumar, að þær voru ekki nægar, nema með því að grípa til sama úrræðis og gert hefur verið áður tvisvar sinnum fyrir nokkrum árum, að ekki þurfi að telja til frádráttar bráðabirgðalán bankans, sem tekin voru erlendis. Bankinn fór þá fram á það við viðskmrh., að gefin væru út lög um þetta efni, að þær lántökur, sem bankinn hefur stofnað til erlendis, yrðu ekki reiknaðar til frádráttar inneignum bankans erlendis, sem væru til tryggingar seðlaútgáfunni. Um þetta voru gefin út brbl. 3. sept. s.l., og er þetta frv. lagt fram til staðfestingar á þessum lögum.

Ég vil svo að lokum leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.