10.02.1948
Neðri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Frv. þetta um breyt. á l. um meðferð einkamála í héraði er flutt vegna þess ósamræmis, sem hefur skapazt milli réttarstöðu hæstaréttardómara annars vegar og héraðsdómara hins vegar. — Frá fornu fari hefur svo verið ákveðið í lögum, að hæstaréttardómurum yrði ekki vikið úr embætti nema með dómi fyrr en eftir að þeir hafa náð 65 ára aldri, og þá með fullum launum eftir það. Á síðari árum hefur nú tvennt gerzt. Í einkamálalöggjöfinni frá 1936 var svo kveðið á, að héraðsdómurum mætti ekki víkja frá nema með dómi. Og enn fremur, að aldurshámark venjulegra embættismanna var hækkað á s.l. ári og miðað við 70 ár í stað 65.

Þannig verða nú hæstaréttardómarar, ef dómsmrh. sýnist að veita þeim lausn frá embætti, að hverfa úr stöðum 65 ára að aldri, en héraðsdómarar ekki fyrr en þeir hafa náð 70 ára aldri, og þannig tryggðir í starfi 5 árum lengur, enda þótt þeir séu lægra settir sem embættismenn en dómarar hæstaréttar. Þetta virðist mér fullkomið ósamræmi og óeðlilegt að menn, sem sitja í lægri og umfangsminni dómaraembættum, hafi að þessu leyti meiri rétt en hinir æðstu dómendur. Þetta lagafrv. fer í þá átt að færa þetta til samræmis, og er til þess ætlazt, að dómsmrh. geti veitt þeim héraðsdómurum, sem náð hafa 65 ára aldri, lausn frá embætti, enda njóti þeir þá sömu eftirlauna sem þeir hefðu fengið, ef þeir hefðu gegnt starfinu til 70 ára aldurs.

Nú geri ég ráð fyrir, að sumir spyrji, hvort héraðsdómarar verði þá ekki að þessu leyti verr settir en aðrir embættismenn. En svo er ekki. Allir embættismenn eru undir það seldir, að þeim má víkja frá embætti, og þeir geta þá borið mál sitt undir dóm og fengið skaðabætur, hafi þeir verið látnir hverfa frá embætti að ósekju. En ég játa, að oft er það mikið vafamál, hvort telja skuli menn, sem eru á aldursskeiðinu frá 65–70 ára, hæfa til að gegna embætti. Getur verið, að hæpið sé, að maður á þeim aldri gegni dómarastöðu, þótt embættisfærsla hans sé slík, að ekki sé hægt að saka hann um brot í því sambandi.

Ef mönnum skyldi ekki sýnast öruggt að réttarstaða héraðsdómara væri nægilega trygg með þessu, þá hef ég ekkert á móti því, að tryggt verði, að hún sé í engu lakari en annarra embættismanna.

Vil ég svo að lokum leggja til, að málið sé látið fara til 2. umr. og allshn.