16.02.1948
Neðri deild: 57. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Skúli Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál. Hæstv. dómsmrh. mælti ekki móti því, sem ég hélt fram í minni fyrri ræðu, að með þessu frv., ef samþ. yrði, væri gerð breyt. á því, sem samþ. var í fyrra í l. um aldurshámark embættismanna.

Hæstv. ráðh. (BBen) sagði, að hægt væri að víkja öltum embættismönnum frá nema dómurum. Þetta er sjálfsagt rétt hjá ráðh., en benda má á það, að þetta er yfirleitt ekki gert nema einhver sök sé fyrir hendi. Þótt svo kunni að vera, að dómarar hafi heimild til að segja mönnum upp og þótt dómarar njóti þessarar sérstöku verndar umfram aðra embættismenn, er þá nokkur ástæða til að hafa þessa sérstöðu um þá aðeins milli 65–70 ára? Ættu þeir ekki að hafa sama rétt á öllum aldri?

Annars verð ég að segja það, að mér kemur dálítið einkennilega fyrir sjónir þessi skilningur hjá hv. 7. þm. Reykv. (JóhH), sem er frsm. n., á frv., því að mér skilst hann halda því fram, að þótt þetta yrði samþ., veitist ráðh. þar með ekkert ríkari heimild til að víkja dómara frá en öðrum embættismönnum, þ.e.a.s. þeim, sem yrðu fyrir því að verða víkið frá milli 65–70 ára. Þeir hafi rétt til skaðabóta. Ef þetta er meiningin, vildi ég, að þetta yrði gert greinilegra, því að í frv. stendur, að þeir njóti sömu eftirlauna, en það er annað en það, sem kom fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv.