16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

148. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki deila frekar um frv. þetta. Ég hef þegar gert ýtarlega grein fyrir þessu máli, hvað fyrir mér vakir með því, og við það verður að sitja. Hvað viðkemur hæstaréttardómurunum, þá hafa þeir ekki miklu meiri rétt en héraðsdómarar, þó þeir fari frá við 65 ára aldurinn. Þeir fara frá með fullum launum, og ég geri nú ráð fyrir, að þeir hefðu heldur kosið að halda áfram starfi og vinna fyrir kaupi sínu. Það er meiri heiður að sinna ábyrgðarmiklu starfi.

Út af þeim ugg, sem hv. þm. Str. lét í ljós um það, að ráðh. gæti misbeitt valdi sinu eftir ákvæðum frv., þá er sízt meiri hætta á því eftir ákvæðum þessa frv. en ákvæðum l. frá 1935. Á því tímabili var ráðh. heimilt að láta dómara fara frá án nokkurra skaðabóta, en með þessu frv. getur dómari krafizt skaðabóta, ef ráðh. víkur honum frá að ástæðulausu eða misbeitir embættisvaldi sinu. Ef l. frá 1935 hefur ekki verið misbeitt, þá eru enn minni líkur til þess, að svo verði nú, því nú fær ráðh. ekki meiri rétt en áður, en dómarar hafa rétt til skaðabóta, ef ráðh. misbeitir valdi sínu. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að andmæla hv. þm. Str. Fjórir af færustu hæstaréttardómurum hérlendis hafa verið látnir fara frá fyrir sjötugsaldurinn, þeir Eggert Briem, Páll Einarsson, Einar Arnórsson og Lárus H. Bjarnason, en nú er lagt til, að menn í slíkum embættum megi fara eftir 65 ára aldur. en engin skylda hvílir á að víkja þeim frá. Tveir af þeim mönnum, sem ég nefndi, voru mér vel kunnir og andlegt atgervi þeirra var með þeim hætti, að þeir voru í fullu fjöri og fullfærir til þess að gegna dómarastörfum, er þeir hurfu úr embætti.

Ég skal ekki ræða þetta mál frekar. Frv. þetta er byggt á rökréttri hugsun. Lögfræðingafélagið og þeir héraðsdómarar, sem tóku frv. til athugunar, hafa engar athugasemdir gert við það eftir að hafa kynnt sér efni þess. Lögfræðingafélagið hefði áreiðanlega gert athugasemdir við frv., ef því hefði fundizt vera hallað á stétt sína í þessu.