02.03.1948
Efri deild: 72. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

134. mál, eignakönnun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er ekki til að mótmæla frv., að ég tek til máls, heldur til þess að benda n. á það, að það er alveg nauðsynlegt að gera nú jafnframt aðrar breytingar á eignakönnunarlögunum.

Í fyrsta lagi vantar í þau öll ákvæðin um það, hvernig menn eigi að ná rétti sínum, ef þeir þykjast hafa orðið hart úti við eignauppgjör og verið rangindum beittir af nefndinni. Um þetta er ekki svo mikið sem einn stafur í lögunum. Það er heldur enginn stafur fyrir því í lögunum, að menn hafi rétt til að fylgjast með því, hvernig á þá er lagt.

Væntanlega gætu menn kannske gert skriflegar kvartanir til stjórnaraðila, en um það vantar sem sagt öll ákvæði í lögin.

Það vantar og í lögin ákvæði um það, að gerðir nefndarinnar skuli liggja frammi eins og annarra skattanefnda og að menn hafi rétt til að kæra. Og þegar nú er verið að breyta lögunum og þessi hlið laganna ekki komin í framkvæmd að neinu leyti, þá er upplagt að lagfæra þetta einmitt nú og setja inn í lögin ákvæði um það, hvernig menn eigi að ná rétti sínum, ef þeir eru órétti beittir. — Þetta vænti ég, að nefndin vilji taka til athugunar.