09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að ég hefði verið með ásakanir í garð hans og flokks hans í ræðu minni hvað viðkæmi bættum kjörum launþega í landinu. Ég mun ekki fara út í að bera saman flokka okkar hv. 2. þm. Reykv., en þegar um er að ræða bætt kjör alþýðunnar í landinu, gæti ég það óhikað. Það er óhætt að fullyrða, eins og hv. þm. V-Ísf. tók fram, að það er ekki til neins góðs fyrir launþega og gefur ranga hugmynd um dýrtíðina, ef nú 1948 á að fara að breyta grundvelli vísitölunnar, ef nú ætti að fara að bera verðvísitöluna saman við vísitöluna eins og hún var í ársbyrjun 1947. eða 312 stig. Ef þessi samanburður verður gerður, sem hv. 2. þm. Reykv. leggur til, kemur út rangur samanburður miðað við ársbyrjun 1947 og 1948. Þessi samanburður verður engum til gagns né gleði og ekki til annars skapaður en að þyrla upp moldryki og frá þjóðfélagslegu sjónarmiði ekki til annars en að skapa misskilning; sem óhlutvandir stjórnmálamenn gætu síðan notað sér til framdráttar.