09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir brtt., sem við flytjum á þskj. 272. Ég var ekki viðstaddur umr. um málið, en hef aðeins heyrt nokkuð af því, sem hæstv. forsrh. hefur sagt um málið. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að ef þessi brtt. yrði samþ., mundi hún gefa ranga hugmynd um dýrtíðina í landinu, og væri hún frá því sjónarmiði ekki sanngjörn. Ég viðurkenni fúslega, að mér er ekki vel ljóst, við hvað hæstv. forsrh. á með þessum ummælum sínum.

Hæstv. forsrh. taldi, að engri sanngirni væri fullnægt, þó að þessi till. yrði samþ. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í samþykkt. sem gilt hefur hér meðal verkamanna og atvinnurekenda í þessu landi, þá hafa verið ákveðin ákvæði, sem hafa verið á þann veg, að verkamenn skyldu fá laun greidd með vísitölu hvers mánaðar einum mánuði seinna en vísitalan var birt. Það er því rétt, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði, að það hefur ekki komið fram raunveruleg verðlagsvísitala nema fyrir 11 mánuði á laun verkamanna s.l. ár og janúarmánuð þessa árs. Það hlýtur því að vera sanngjarnt, að verkamenn fái réttláta uppbót á kaup, sem þeir fengu fyrir janúarmánuð.

Hæstv. forsrh. minntist á það í niðurlagi ræðu sinnar, að sú málssókn, sem hafin væri fyrir félagsdómi út af því, hvort ætti að greiða verkamönnum 328 eða 326 stig fyrir janúarmánuð, væri einungis deila um 2 stig. Síðan hefur hæstv. ráðh. upplýst, að hann hafi misskilið þetta atriði og það hefðu verið 28 stig, sem um hefði verið deilt. Það er rétt. En um félagsdóm ætla ég ekki að ræða hér, en sá dómur var ekki sanngjarn að dómi launþeganna. Og ég hygg, að það væri mjög vel til fallið, að Alþ. leiðrétti þá rangsleitni, sem mér skilst, að launþegar hafi orðið fyrir vegna þessarar gr., sem við förum hér fram á breytingu á.