18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Ég er hissa á þeirri taugaveiklun, sem kemur fram hjá hæstv. forsrh. í sambandi við þetta mál. Hann sagði ekki neitt. sem hv. frsm. hafði ekki sagt áður. Það er einkennilegt, ef réttar hagskýrslur valda glundroða og ruglingi vegna þess, að þær séu ekki sambærilegar við fyrri hagskýrslur. Það er vægast sagt furðuleg kenning. Það víta það allir, að gefnar eru út rangar skýrslur í þessum efnum, en það má ekki leiðrétta þær! Hæstv. forsrh. veit, að þetta er stærsta skekkjan í útreikningi vísitölunnar, þó að skekkjurnar séu fleiri, og því fer ég fram á, að þetta sé leiðrétt. Ef þessi skekkja væri leiðrétt, gæfi vísitalan réttari mynd af ástandinu eins og það er.

Hv. 7. landsk. spurði, af hverju ég hefði ekki flutt þessa till. áður. Hann veit, að það hefði verið tilgangslaust. Nú er þetta borið fram til þess að fá rétta mynd af verðlaginu, og hver getur verið á móti því, að gefnar séu út réttar hagskýrslur?