18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins stutt aths. Þetta voru nú ekki annað en dylgjur og getsakir í minn garð, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. nú, — og því óþarfi að svara því — um það, að ég bæri till. mína í þessu máli fram í pólitískum tilgangi og til þess að slá ryki í augu manna. Hæstv. forsrh. var hér nú með dylgjur um það, að óvandaður stjórnmálamaður — þ.e.a.s. ég — ætlaði sér, með því að fá samþ. þessa till., að fá tækifæri til að slá ryki í augu manna. Ég vona, að enginn hv. þm. greiði atkv. eftir slíkum getsökum. Því að ég get engan veginn skilið, hvernig réttar hagskýrslur eiga að geta orðið til þess að gefa óvönduðum mönnum tækifæri til þess að slá ryki í augu manna.