22.01.1948
Neðri deild: 42. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

12. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv., þegar það lá fyrir á sínum tíma fyrir jólin. Liggur hún hér fyrir á þskj. 173 og fer fram á, að námsmönnum og öðrum, sem eru erlendis um stundarsakir, sé heimilt að flytja inn verkfæri og áhöld, sem þeir hafa keypt fyrir sín laun eða annað fé, sem þeir hafa hlotið erlendis. — Ég skal taka fram, að ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt., er sú, að stúlka nokkur úr mínu héraði, sem búin er að vera 4 ár erlendis og fékk dálítið arfafé, kvartaði við mig undan því, að hún hefði keypt sér smábil, áður en hún fór heim, en henni hefði verið neitað um innflutningsleyfi fyrir þessum bil, þegar hún kemur. Og fleiri dæmi munu vera svipaðrar tegundar, en slíkt álit ég, að eigi ekki að eiga sér stað, þar sem líkt stendur á, því að kunnugt er, að það hafa það rúm leyfi verið veitt fyrir útflutningi á arfafé og öðrum líkum upphæðum, að engin sanngirni getur talizt að láta það ske, að ekki sé leyfður innflutningur á hlutum, sem færa má sönnur á, að engan íslenzkan gjaldeyri þarf fyrir. — Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu.