18.03.1948
Neðri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

12. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Ásgeir Ásgeirsson:

Þegar fjhn. fékk þetta mál til umsagnar snemma á þingi, sendi hún það til tollstjóra, sem gerði við það tvenns konar till. um breytingar, þ.e. breytingar á frv. og í öðru lagi till. um nýtt frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að setja reglugerð um meðferð á erlendum gjaldeyri og um útflutning á íslenzkum og erlendum gjaldeyri. Það frv. tók meiri hl. n. upp sem sitt eigið frv. En þar sem liðið er á þingtímann og frv. skammt áleiðis komið, þá hefur n. haldið sig við fyrsta frv. og gert á því breytingu, sem er í samræmi við skoðun tollstjóra.

Innan n. er ágreiningur um eitt atriði, hvort krefja skuli drengskaparyfirlýsingar af innlendum og útlendum mönnum um það, að þeir hafi ekki samið við erlenda aðila um að fá erlendan gjaldeyri eða uppihald erlendis gegn greiðslu í íslenzkum gjaldeyri.

Um þetta ákvæði, sem kemur fram í 3. og 4. gr. frv., að því er snertir innlenda menn og erlenda menn, er ágreiningurinn, og leggur meiri hl. n. til á sérstöku þskj. að fella þessi ákvæði burt á báðum stöðum. En við, sem erum í minni hl., við hv. þm. V-Húnv., kjósum heldur að láta þetta ákvæði standa. Af þeirri ástæðu og þar sem það er meiri hl. n., sem gerir þarna breyt., þá vil ég óska þess, að hæstv. forseti vildi við atkvgr. bera sérstaklega upp 2. brtt. a frá n., síðan 1. brtt. meiri hl., því að ef hún verður felld, þá mundi 2. liður b koma til atkv. sem nokkurs konar varatill.