18.03.1948
Neðri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

12. mál, útflutningur og innflutningur á íslenzkum og erlendum gjaldeyri

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég vildi aðeins láta ánægju mína í ljós yfir því, að tekizt hefur samkomulag um þetta mál að mestu leyti. Þetta mál er þannig vaxið, að ég álit heldur betra, að þetta form verði haft á, heldur en að gera breytingu við fjárhagsráðsl.

Um efni málsins skal ég svo ekki ræða. Það má segja, að fullt samkomulag hafi náðst nema um þetta litla atriði, sem ég er þó ekki óhræddur um, að geti valdið árekstri, þannig að menn geti óátalið samið um að fá tryggt uppihald erlendis fram hjá gjaldeyrisyfirvöldunum, og kemur þá sú spurning strax í huga manns, hvort sá einstaklingur hafi erlendis gjaldeyri, sem aflað hafi verið á löglegan hátt, ef hann hefur gert samning við kunningja sinn um uppihald, en ferðast svo um úti án þess að gera grein fyrir, hvaðan sá gjaldeyrir sé. Því miður lítur svo út, að það muni ekki vera hægt að veita í náinni framtíð þann gjaldeyri, sem óskað er eftir til utanferða, og gæti því verið ástæða til þess að óttast, ef ekki verða ákvæði um það sett og það verður talin lögleg gjaldeyrisöflun að gera samning við kunningja sinn um það, að hann greiði uppihald fyrir sig erlendis, að þetta yrði til þess, að gjaldeyrisyfirvöldin misstu þetta ákvæði út úr höndunum. Ég mæli því með brtt. minni hl. fjhn. í þessu efni.