19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

61. mál, sementsverksmiðja

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. atvmrh. fyrir, að þetta frv. er fram komið og líka fyrir það, að séð verður fyrir því, að sú reynsla, sem fengizt hefur, verði hagnýtt, þó að það hafi kostað ríkissjóð nokkra peninga. Sérstaklega ber að þakka þeim, sem upptökin eiga að því, að út í þetta var lagt, sem ég er sannfærður um, að verður til mikils gagns, ef haldið verður áfram.

Eins og fram kemur í grg. frv., er þetta mál búið að vera á döfinni frá því 1935, og liggja fyrir ýtarlegar rannsóknir og var þetta svo langt komið, að búið var að afla tilboða í vélarnar frá Danmörku fyrir stríð, en enn þá hefur ekki orðið nein framkvæmd á þessu. Að vísu var það stór galli að halda, að verksmiðjan þyrfti endilega að vera nálægt Rvík. Það mundi skapa ýmsan aukakostnað, því að það er sjálfsagt að byggja verksmiðjuna þar, sem sandurinn er, þ.e. á Vestfjörðum, og með það fyrir augum var farið að rannsaka firðina á Vestfjörðum. Það hafa verið gerðar till. um ýmsa staði. En þrátt fyrir það að verksmiðjan hefði verið staðfest hér í Rvík, þá er ekki vafi á því, að hún væri búin að veita íslenzku þjóðinni margar milljónir króna, ef við hefðum borið gæfu til þess að ráðast í þessar framkvæmdir fyrir stríð. Verksmiðjan hefði þó ekki kostað nema brot af því, sem hún hefði sparað okkur í gjaldeyri þessi árin, ef svo vel hefði til tekizt. Það þýðir ekki að sakast um það. Við höfum þarna glatað tækifæri á þessu sviði, eins og mörgum öðrum. Ég man ekki tölur, sem talið var, að verksmiðjan hefði kostað fyrir stríð. Ég býst við, að það hefði ekki verið fjarri að ætla það 2–3 millj. kr. Það mundi sannarlega kosta 10 millj. kr. nú, eða meira en þre- til fjórfalt miðað við það, sem var fyrir stríð. Nú þýðir ekki að sakast um orðinn hlut, en reyna að læra af því, þegar svona mistök eru gerð.

Hvað snertir framleiðsluna, þá er hægt að kaupa vélar, þó að staðhættir séu ekki fyrir hendi. Það þarf að gera þau innkaup, þegar búið er að finna það út, að til eru hráefni í landinn.

Staðsetning eða nákvæmt fyrirkomulag verksmiðjunnar er atriði, sem hægt er að vinna að meðan verið er að smíða vélarnar, því búast má við, að það taki langan tíma, 11/2–2 ár. Ég tel því mjög nauðsynlegt að hafa hraðar framkvæmdir á þessu, og ég er sannfærður um, að enn um stund muni verða töluverð hækkun á allri iðnaðarvöru erlendri, svo að þannig töpum við fjármunum með hverjum deginum, sem liður, ef ekki eru fest kaup á þessum vélum. Frá gjaldeyrissjónarmiði er þetta svo stór þáttur í gjaldeyrissparnaði, að við ættum ekki að hika við að ráðast í þessa framkvæmd. Ég er sannfærður um, að ef keyptar verða nýtízku vélar, geta Íslendingar ekki síður rekið verksmiðju á hagkvæman hátt en útlendingar.

Ég er ekki í vafa um, að það er rétt að miða afköstin við 75 þús. tonn. Það eru allir, sem tei ja líkur fyrir því, að ekki veiti af því, sérstaklega ef farið verður inn á þá braut að steypa þjóðvegi, sem fremur er hægt að gera, ef ekki þarf að greiða sementið í erlendum gjaldeyri. Ef við þurfum ekki á öllu því sementi að halda; þá er ég sannfærður um, að möguleikar væru á að flytja sement út. Það eru ýmsar borgir í Evrópu, sem geta ekki framleitt sement sjálfar, heldur verða að flytja það til sín með járnbrautum. Nú er það þannig með vöru eins og sement. að ef taka á það í skip, munar litlu á verði. hvort sem það er flutt hundrað mílur eða þúsund mílur. Þannig að það er ekki útilokað, að ýmsar þjóðir sjái sér hag í að kaupa sement frá Íslandi frekar en að flytja það langar leiðir með járnbrautum, þó að þær framleiði það sjálfar. Því þykir mér rétt að miða afköstin við 75 þús. tonn, eins og gert er í frv. Eins og kunnugt er, liggja fyrir mörg l. um byggingu á ýmsum verksmiðjum, t.d. byggingu á tunnuverksmiðju o.fl., sem ekkert hefur verið gert í. Eigum við nú að setja þessa sementsverksmiðju í þetta safn, sem núverandi ríkisstj. virðist ekki hafa sérstakan áhuga fyrir að rusla til í og láta framkvæma? Eða eigum við nú þegar að afgreiða þetta frv. og láta í ljós vilja Alþ. um, hvort meiningin er að gefa bara heimild, sem hægt er svo að flagga með og síðan að framkvæma ekkert? Alþ. á nú að taka þetta föstum tökum og segja ákveðið: Þetta skal verða framkvæmt. Því að það liggja þegar fyrir þær upplýsingar, sem þarf, þó að margt eigi eftir að gera til undirbúnings á byggingu verksmiðjunnar. Og þegar er vitað, að nóg hráefni er til, og því ekki að skaffa orku með gufukatli eða mótor eins og gert var ráð fyrir hér til að byrja með? Því fyrr sem hægt er að framleiða sement með svipuðu verði og erlent, því minni gjaldeyri þarf til að afla sements. Þetta liggur hér fyrir, og þess vegna tel ég eðlilegt, af því að það er ekki svo bjart framundan hjá stj. og hún hefði ef til vill ekki hug til að nota þessa heimild, þá vil ég, að Alþ. skeri hér úr eða ákveði skýrt um, hvort byggja á þessa verksmiðju eða ekki.

Með tilvísun til þessa leyfi ég mér að bera fram skriflega brtt. við 1. gr. frv., og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana: Ríkisstj. skal láta reisa við Önundarfjörð verksmiðju með fullkomnum vélum og öðrum nauðsynlegum útbúnaði til framleiðslu sements. Vinnslugeta skal miðast við 75 þús. tonna framleiðslu á 300 dögum. Skal ríkisstj. láta hefja byggingarframkvæmdir á árinu 1948 og hraða þeim sem mest.