19.02.1948
Neðri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

61. mál, sementsverksmiðja

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. V-Ísf. vil ég geta þess, að ég minntist á það mál við meðnm. mína að taka brtt. aftur til 3. umr., og er okkur ljúft að verða við þeirri ósk hv. þm., til þess að okkur gefist tækifæri til þess að athuga möguleika á því að breyta 7. gr. í samræmi við óskir hans. Ég leyfi mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, að þessi brtt. komi ekki fram nú, heldur verði geymd til 3. umr.

Hitt atriðið, sem hann minntist á með 7. gr., höfum við sjálfir talið æskilegra, að hún yrði eins og hún var, vegna þess að upphaflega var gert ráð fyrir því, að verksmiðjan skyldi greiða útsvar af ákveðnum hundraðshluta kostnaðarverðs framleiðslunnar. Þ.e.a.s. í núgildandi útsvarsl. er niðurjöfnunarn. í sjálfsvald sett, eftir hvaða reglum hún leggur á útsvar, og getur hún því lagt eftir sinum vilja á tekjuafgang eða veltuútsvar eða hvort tveggja. N. þótti ekki ástæða til að binda hér í l., að útsvarið skyldi vera veltuútsvar eingöngu, þar sem hvort sem er aðrar takmarkanir eru í gr. um, að útsvar megi ekki fara fram úr 50% af nettótekjunum. Það er því á valdi niðurjöfnunarn. sveitarstjórnar viðkomandi hrepps, eftir hvaða reglum hún leggur á verksmiðjuna. — Um hitt atriðið, að miða útsvarsskyldu hennar við innflutt sement, er það að segja, að ef verksmiðjan seldi sement sitt við lægra verði en væri á innfluttu sementi, væri hún skyldug til að greiða útsvar af hagnaði, sem hún hefði aldrei haft, og þá útsvarsskylda verksmiðjunnar meiri en raunverulega, og taldi n.

það ekki eðlilegt og gerði þess vegna breyt. á þessu, því að eðlilegra væri, að hún greiddi af þeim hagnaði, sem reikningarnir sýndu miðað við söluverð.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að brtt. hv. þm. Siglf., þar sem hann leggur til, að 1. gr. verði breytt þannig, að ríkisstj. verði gert það að skyldu að byggja, en í frv. er henni heimilað að láta byggja. — Svo mun háttað um allar verksmiðjur ríkisins, sem hafa með höndum verklegar framkvæmdir, að lagafrv. hafa verið afgr. frá Alþ. í heimildarformi, og má hér benda á, að l. um síldarverksmiðjur ríkisins hafa verið samþ. sem heimildarlög. Ég tel því ekki neina ástæðu til þess að breyta frá þeirri venju, sem skapazt hefur, og rök þau, sem fram hafa verið borin um, að nauðsynlegt væri að fyrirskipa í l., hvenær og hvernig skuli hefjast handa með sementsverksmiðju, fá ekki staðizt. Það, sem hér er um að ræða, er það, hvort hv. þd. hefur það mikið traust á hæstv. ríkisstj., að henni sé treystandi til þess að ráðast í verklegar framkvæmdir, ef henni finnst það skynsamlegt. Ég dreg ekki í efa, að lokaathugun á þessu máli muni leiða í ljós, að bygging sementsverksmiðju sé skynsamlegt fyrirtæki, og ég treysti hæstv. ríkisstj., þeirri er nú situr, til þess að koma því í framkvæmd að athugunum loknum. Ég tel því enga ástæðu vera til þess að hvika frá því, að l. séu afgr. í heimildarformi.