20.02.1948
Neðri deild: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

61. mál, sementsverksmiðja

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Rang. hreinskilni hans. Mér skilst, að við séum ekki sammála. Hann segir, að þeir vilji ekki samþykkja till. mína, af því að þeir vilji staldra við í málinu. Það er gott að fá þetta fram. Það sýnir muninn, sem er á till. minni og frv. Á að staldra við eða byggja á þeim rannsóknum, sem fyrir liggja og leitt hafa til jákvæðs árangurs? Um það snýst málið nú. Það á að staldra við í málinu til að sjá fótum sínum forráð! Það hefur nefnilega aldrei verið risið gegn neinum verksmiðjubyggingum hér á landi nema með þessari einu mótbáru, sem hefði líka komið í veg fyrir allar verksmiðjubyggingar, ef hún hefði alltaf verið tekin til greina. Það hafa svo sem allir verið með verksmiðjubyggingum, en bara viljað sjá fótum sinum forráð. Ég býst við, að þessi viðbára hafi stoppað byggingu þessarar sementsverksmiðju fyrir stríð, og nú er orðið þrefalt eða fjórfalt sinnum dýrara að reisa hana. og það getum við þakkað því, að hinir varkáru fengu að ráða.

Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt, að það væri aukaatriði, hvort verksmiðjan kostaði 15 eða 30 millj. Það sagði ég ekki. En ég sagði, að við gætum ekki farið að stöðva framkvæmdir af þeirri sök, að við vissum ekki nákvæmlega, hver kostnaðurinn yrði, því ef við ættum ávallt að stoppa við unz öruggt væri, að engir áætlaðir kostnaðarliðir gætu haggazt, — ja, þá legðum við bara aldrei í neinar framkvæmdir. Frá því að vélarnar í nýju verksmiðjurnar á Skagaströnd og Siglufirði voru t.d. keyptar, hefur verð á slíkum vélum aukizt nærri því um helming og kaupgjald hækkað, svo að í því tilfelli hefði ekki reynzt hyggilegra að bíða og biða. Til þess að standa fyrir byggingu þessara verksmiðja voru valdir hinir beztu kunnáttumenn, sem þjóðin átti kost á á því sviði, menn eins og Þórður Runólfsson, viðurkenndur vélaverkfræðingur, Snorri Stefánsson verksmiðjustjóri, sem manna lengst hefur starfað hér við síldarverksmiðjur, eða síðan 1911. og loks Magnús Vigfússon og Trausti Ólafsson, sem manna bezt hefur fylgzt með síldarverksmiðjubyggingum síðan 1931. Enda var fullt samkomulag milli mín og stjórnar síldarverksmiðja ríkisins um, að þetta væru hinir beztu fagmenn. sem hægt væri að fá, og allir voru sammála um að bíða ekki í hálft ár eftir áætlunum. Það, að verksmiðjurnar urðu dýrari en ella, var af því, að verkinu var hraðað óeðlilega mikið, og það var aftur gert í því skyni, eins og kunnugt er, að þær gætu orðið tilbúnar á síldarvertíðinni 1946. Byggingarnefndin telur, að henni hafi tekizt að gera verksmiðjurnar svo úr garði, að þær væru tilbúnar á þessari vertíð. Síldarverksmiðjustjórnin eða Sveinn Benediktsson telur hins vegar, að það hafi ekki tekizt. Úr því fékkst ekki skorið til fulls, því miður, því að það kom engin síld sumarið 1946. Ef síld hefði borizt til vinnslu þá í þessum verksmiðjum, hefðu e.t.v. sparazt 4–6 millj. kr., og þessi kostnaður hefði margfaldlega borgað sig.

Skeiðsfossvirkjunin á Siglufirði fór rösklega 100% fram úr áætlun, svo að Siglufjarðarkaupstaður hélt því fram, að áætlanirnar hefðu verið skakkar og þess vegna hefði verkið farið svo mjög fram úr áætlun. Á þessum grundvelli fór Siglufjörður í mál, en gerðardómur taldi áætlanirnar hafa staðizt, en verkið aðeins hafa farið svo langt fram úr áætlun vegna verðhækkana. Siglufjarðarkaupstaður tapaði því þessu máli, en áætlanirnar þóttu hafa staðizt, og er þó verra að áætla raforkuver en sementsverksmiðju, sem er vel þekkt fyrirtæki, eins vel þekkt og síldarverksmiðja. Ástæðan til þess, að nýju síldarverksmiðjurnar urðu dýrari en gert hafði verið ráð fyrir, voru þær, að verðlag hækkaði, og það réð byggingarnefndin ekki við. Og svo er aukakostnaðurinn, sem ég minntist á áðan, sem varð af því, að verið var að hraða byggingunni fyrir síldarvertíðina. Það er rangt hjá hv. 2. þm. Rang., að fyrst hafi verksmiðjurnar verið áætlaðar 18, þá 27 og loks orðið 40–42 millj. Þetta er rangt. því að engar áætlanir voru gerðar um það. En það liggur fyrir áætlun, sem Jón Gunnarsson gerði 1943, um verksmiðju með 10 þúsund mála meðalafköst upp á 16 millj. kr. Reynslan hefur sýnt, að nýja Siglufjarðarverksmiðjan kostaði innan við 20 millj., og ef byggja ætti sams konar verksmiðju nú, yrði hún mjög miklu dýrari. Verksmiðjan á Siglufirði hefur afkastað 10 þúsund málum í vetur og komizt á tólfta þúsundið, en alltaf þarf að vera að breyta gömlu verksmiðjunum og gera við þær. SRN hefur alltaf öðru hverju verið stopp, SRP hefur tæplega skilað hálfum afköstum, afköst SRN hafa verið 3–4 þúsund mál að jafnaði, þegar hún hefur verið í gangi, en sjaldan komizt í 5 þúsund mál, eins og hún er þó gerð fyrir, en SR 30 hefur ein verið í góðu lagi af gömlu verksmiðjunum. Rekstrarkostnaður nýju verksmiðjunnar er ódýrari en hinna gömlu, og ef við hefðum nóg af nýjum verksmiðjum, yrði það ekki talið borga sig að reka þær gömlu. Varðandi nýju verksmiðjuna á Siglufirði stendur þannig fullyrðing gegn fullyrðingu, en Siglfirðingar hafa þreifað á því í vetur, hvers virði hún er, og sjómenn og útgerðarmenn eru farnir að gera sér það ljóst. Ég læt því núv. ríkisstj. um að byggja betur verksmiðju, þó að ég þakki sjálfum mér ekki, heldur því, að valdir voru menn til að standa fyrir byggingunni, sem bezt voru til þess fallnir. En eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Rang. áðan. er hér um það að ræða, hvort byggja skuli strax sementsverksmiðju eða staldra við. Hann velur síðari kostinn. Ég álít, að nægileg rannsókn sé fyrir hendi. Á kannske að staldra við í 12 til 14 ár enn þá, eða á að reisa sementsverksmiðjuna strax? Út um það verður gert nú.